Usain Bolt, sexfaldur Ólympíumeistari í spretthlaupi, ítrekar enn og aftur að hann noti ekki árangursbætandi efni en samlandar hans, Asafa Powell og Sherone Simpsons, voru nýverið dæmd í keppnisbann vegna neyslu ólöglegra lyfja og sömu sögu má segja um Bandaríkjamanninn Tyson Gay.
„Ég er hreinn,“ sagði Bolt á blaðamannafundi í London í dag en hann er þangað mættur til að keppa á afmælismóti til marks um að eitt ár sé síðan Ólympíuleikarnir í London voru settir.
„Íþróttamenn verða samt að passa sig svakalega í dag því það er svo margt á bannlistanum. Maður er kannski ekkert að fylgjast með þannig hlutum. Það er erfitt en þess vegna er maður með teymi í kringum sig til að hjálpa sér.“
„Ég er endalaust tekinn í lyfjapróf. Ég fór í próf í fyrradag síðast. Það er bara hluti af mínu lífi. Þeir sem hafa fylgst með mér síðan 2002 vita samt að ég hef gert ótrúlega hluti síðan ég var 15 ára. Ég var yngsti maðurinn í sögunni til að vinna HM unglinga og hef bætt öll met sem hægt er að bæta í öllum mínum greinum,“ sagði Usain Bolt.