Jamaíkumaðurinn Usain Bolt, heimsmethafi í 100 og 200 metra hlaupi, segist alveg vera tilbúinn að mæta Bretanum Mo Farah, Ólympíumeistara í 5 og 10 km hlaupi, í sérstöku hlaupi til styrktar góðu málefni.
Farah vill að áhugafólk um frjálsar íþróttir kjósi um hvaða vegalengd þeir Bolt keppi í. Hann setti fram áskorunina í viðtali við Sky um helgina og Bolt tók vel í hana.
„Þetta hljómar vel. Þetta yrði erfitt en til styrktar góðu málefni svo það yrði bara gaman. Ég er til í hvað sem er,“ sagði Bolt sem vill þó ekki fara að hlaupa 1.500 metra hlaup eða eitthvað þeim mun lengra.
„Það er allt of langt. Við gætum hlaupið 600 metra enda hef ég gert það á æfingu, en ekki 1.500 metra,“ sagði Bolt en Farah setti nýverið Evrópumet í 1.500 metra hlaupi.