Ingibjörg Kristín Jónsdóttir úr SH var hæstánægð eftir að hafa bætt Íslandsmetið í 50 metra baksundi á HM í Barcelona í dag um 37/100 úr sekúndu. Ingibjörg kom í mark á 28,62 sekúndum og var grátlega nærri því að komast í undanúrslitin.
Ingibjörg lenti í 17. sæti en þær 16 fyrstu komust í undanúrslitin.
„Ég er rosalega ánægð. Markmiðið mitt var 28,89 þannig að þetta var framar vonum,“ sagði Ingibjörg í viðtali við SSÍ eftir keppnina, en viðtalið má sjá hér að ofan.
„Mér fannst síðasta takið ekkert geðveikt en veit þá hvað þarf að bæta,“ bætti hún við. Jacky Pellerin landsliðsþjálfari sagði sundið hafa verið mjög gott. Hann sagði Ingibjörgu hafa átt frábæra byrjun og haft gott úthald.
Ingibjörg syndir aftur á laugardinn á HM og þá í 50 metra skriðsundi.