Anton SVeinn McKee úr Ægi bætti sig um 1,85 sekúndu í 200 metra bringusundi á HM í Barcelona í dag. Hann kom í mark á 2:15,12 mínútum og varð í 29. sæti af 43 keppendum.
Anton átti fyrir fram 40. besta tímann af keppendunum.
Síðasti keppandi inn í undanúrslitin synti á 2:11,71 mínútu. Jakob Jóhann Sveinsson á Íslandsmetið í greininni, frá því á HM í Róm 2009, en það er 2:12,39 mínútur.
Anton hafði áður sett Íslandsmet í 400 metra skriðsundi og keppt í 800 metra skriðsundi á mótinu. Hann lýkur svo keppni með 400 metra fjórsundi á sunnudaginn.
Fyrr í morgun náði Hrafnhildur Lúthersdóttir inn í undanúrslit í 200 metra bringusundi kvenna. Afrakstur dagsins er því þegar orðinn góður hjá íslenska hópnum en Hrafnhildur keppir í undanúrslitunum kl. 16 að íslenskum tíma.