„Þetta var alls ekki jafn góður tími og ég var að vonast til að ná en ég hækkaði mig upp um eitt sæti sem var fínt,“ sagði Hrafnhildur Lúthersdóttir úr SH eftir að hafa komið 15. í mark í undanúrslitum í 200 metra bringusundi.
Hrafnhildur synti á 2:29,30 mínútum sem er lakari tími en í undanrásunum í morgun. Þá synti hún á 2:28,12 mínútum. Rikke Möller Pedersen frá Danmörku setti nýtt heimsmet í sundi Hrafnhildar en hún synti á 2:19,11 mínútum.
„Hún var langt á undan svo ég tók ekkert eftir því. Ég synti bara mitt eigið sund,“ sagði Hrafnhildur.
„Ég var ósátt þegar ég sá tímann en ég tapaði alla vega ekki,“ bætti hún við.