Jamaíkumaðurinn Usain Bolt, sprettharðasti maður heims, hefur áður lýst yfir áhuga sínum á að fá að spila með Englandsmeisturum Manchester United en hann er dyggur stuðningsmaður liðsins. Nú vill hann að Sir Alex Ferguson kynni sig fyrir nýja knattspyrnustjóranum, David Moyes.
Bolt var spurður að því í samtali við Sport Magazine hvort hann hefði talað við Moyes:
„Ég hef ekki enn haft samband. Ég er að bíða eftir því að Alex komi á fundi svo hann geti sagt Moyes að Usain sé nánast orðinn hluti af Manchester-liðinu,“ sagði Bolt.
„Ég vil spila fótbolta þegar ferlinum lýkur en vonandi næ ég einhverjum góðgerðaleikjum áður en að því kemur,“ bætti hann við.
Heimsmet Bolts í 100 metra hlaupi er 9,58 sekúndur og hann telur hraða sinn geta nýst vel í fótbolta. Eftir Ólympíuleikana í London í fyrra sagðist hann vel geta staðið sig með Manchester United.
„Fólk heldur að ég sé að grínast en ef Alex Ferguson myndi hringja og segja „jæja, það er komið að þessu, komdu hingað og spreyttu þig“, þá myndi ég ómögulega geta hafnað því. Ég myndi ekki vera tilbúinn í þetta ef ég teldi mig ekki nógu góðan. Ég er vel hæfur leikmaður og tel mig geta staðið mig,“ sagði Bolt eftir leikana.