Hrafnhildur Lúthersdóttir sundkona úr SH tryggði sér í morgun sæti í undanúrslitum í 50 metra bringusundi á HM í sundi í 50 metra laug sem haldið er í Barcelona.
Hrafnhildur varð í 16. sæti í undanrásunum. Hún synti vegalengdina á 31,50 sekúndum og bætti eigið Íslandsmet sem var 32,85 sekúndur. Hrafnhildur var skráð með 39. besta tímann af þeim 86 sem skráðir voru til leiks.
Rússinn Juliya Efimova setti nýtt heimsmet í 50 metra bringusundinu í undanrásunum en tími hennar var 29,78 sekúndur.
Ingibjörg Kristín Jónsdóttir úr SH var einnig í eldlínunni í morgun. Hún synti í undanrásum í 50 metra skriðsundi þar sem hún endaði í 32. sæti af 83 sem luku keppni. Ingibjörg kom í mark á 25,88 sekúndum og hún bætti sinn árangur en fyrir sundið var hennar besti tími í greininni 26,06 sekúndur. Íslandsmetið í greininni á Sarah Blake Bateman, 25,24.