Tamgho stökk yfir 18 metra

Frakkinn Teddy Tamgho heimsmeistari í þrístökki karla.
Frakkinn Teddy Tamgho heimsmeistari í þrístökki karla. AFP

Teddy Tamgho frá Frakklandi varð fyrsti maðurinn í 17 ár til þess að stökkva yfir 18 metra í þrístökki í dag þegar hann tryggði sér gullverðlaun á heimsmeistaramótinu í frjálsíþróttum í Moskvu. Tamgho stök 18,04 metra í lokaumferðinni og er  þriðji maðurinn í sögunni til þess að stökkva lengra en 18 metra í þrístökki.

Tamgho hafði forystu fyrir lokaumferðina eftir að hafa stokkið 17,68 snemma í keppninni. Hann er greinilega í góður formi um þessar mundir og hafði í tvígang stokkið yfir 18 metra í keppninni en bæði stökk voru ógild. Tamgho lagði því allt í sölurnar í lokaumferðinni og náði þá gildu stökki yfir 18 metra.

Pedro Pablo Pichardo, frá Kúbu, varð annar. Hann stökk 17,68 metra, eins og Tamgho en fyrir lokaumferðina var næst lengsta stökk Frakkans lengra en hjá Kúbumanninum.

Will Claye frá Bandaríkjunum varð þriðji með 17,52 metra. Ólympíumeistarinn, Christian Taylor, hafnaði í þriðja sæti með 17,20 metra.

Heimsmetið í þrístökki karla á Bretinn Jonathan Edwards, 18,29 metrar. Hann setti það á heimsmeistaramótinu í Gautaborg 1995.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert