Stutt jafntefli í fyrstu skákinni

Anand og Carlsen við upphaf fyrstu einvígisskákarinnar í Chennai á …
Anand og Carlsen við upphaf fyrstu einvígisskákarinnar í Chennai á Indlandi í morgun. AFP

Norski stórmeistarinn Magnus Carlsen og indverski heimsmeistarinn Viswanathan Anand sömdu um jafntefli eftir 16 leiki í fyrstu einvígisskák þeirra um heimsmeistaratitilinn í skák.

Carlsen hafði hvítt og beitti svokallaðri Réti-byrjun. Anand jafnaði taflið fljótt og virtust skáksérfræðingar sammála um að staðan hefði verið í jafnvægi þegar jafnteflið var samið.

Margir hafa beðið spenntir eftir því að heimsmeistaraeinvígið hefjist. Hafi hinn 23 ára gamli Carlsen sigur verður það í fyrsta skipti sem Norðurlandabúi verður heimsmeistari í skák. Anand gæti hins vegar tryggt sér sjötta heimsmeistaratitil sinn en Indverjinn hefur haldið honum frá árinu 2007.

Tefldar verða tólf skákir á næstu rúmu tveimur vikunum og stendur sá uppi sem heimsmeistari sem fyrr nær sex og hálfum vinningi. Einvígið er sögulegt meðal annars fyrir þær sakir að þetta er í fyrsta skipti frá árinu 1921 sem Rússi eða Sovétmaður er ekki í úrslitum þess. Auk þess hefur áskorandinn nokkra yfirburði yfir ríkjandi meistara.

„Þetta er óvenjulegt einvígi því nú er heimsmeistarinn klárlega sá sem minna má sín. Anand er í 8. sæti á stigalista [alþjóðaskáksambandsins] FIDE en Carlsen er stigahæsti skákmaður allra tíma. Ég held að fyrirfram hafi sjaldan hallað eins mikið á heimsmeistarann,“ sagði Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands um einvígið við Morgunblaðið.

Hægt er að fylgjast með einvíginu á heimasíðu mótsins sem m.a. er hægt að nálgast í gegnum vefinn skak.is. Þá verður bein útsending í norska ríkissjónvarpinu NRK frá öllum skákunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert