Eiður Smári Guðjohnsen lék sinn síðasta landsleik fyrir Íslands hönd í gærkvöld. „Ég er ansi hræddur um að þetta hafi verið minn síðasti landsleikur,“ sagði Eiður Smári og beygði af í lok viðtals við RÚV í leikslok á Maksimir-leikvanginum í Zagreb í gærkvöld.
Eiður kveður þar með íslenska landsliðið sem markahæsti leikmaðurinn í sögu þess og sá fjórði leikjahæsti. Hann á 78 landsleiki að baki og aðeins Rúnar Kristinsson (104), Hermann Hreiðarsson (89) og Guðni Bergsson (80) hafa leikið oftar fyrir A-landslið karla.
Eiður hefur skorað 24 mörk í þessum leikjum og er langmarkahæstur en Ríkharður Jónsson er næstur á markalistanum með 17 mörk. Kolbeinn Sigþórsson, sem er í 5.-6. sæti með 13 mörk, er sá leikmaður sem er líklegastur til að ógna markameti Eiðs á næstu árum.
Eiður lék sinn fyrsta landsleik 17 ára gamall vorið 1996 þegar hann kom inná sem varamaður fyrir föður sinn, Arnór Guðjohnsen, í vináttulandsleik gegn Eistlandi í Tallinn. Vegna alvarlegra meiðsla sem hann varð fyrir mánuði síðar lék hann ekki aftur fyrir Íslands hönd fyrr en hálfu fjórða ári síðar en hefur frá þeim tíma sett mikinn svip á landslið Íslands, enda einn fremsti knattspyrnumaður þjóðarinnar frá upphafi.
Eiður lék alla tíu landsleiki Íslands á þessu ári og átti góða endurkomu í liðið eftir að hafa aðeins tekið þátt í einum leik með því á árinu 2012.
Sjá nánar ítarlega umfjöllun um leikinn í Króatíu í 8 síðna íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.