Kristín Björg: Þetta var mjög öruggt

Kristín Björg Jónsdóttir hefur Íslandsmeistarabikarinn á loft.
Kristín Björg Jónsdóttir hefur Íslandsmeistarabikarinn á loft. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Kristín Björg Jónsdóttir er rétt orðin 18 ára og það var hún sem fékk að lyfta Íslandsbikarnum á loft eftir leik SA og Bjarnarins í kvöld, hugsanlega yngsti fyrirliði í meistaraliði í meistaraflokki frá upphafi á Íslandi.

Hún var kampakát og hafði þetta að segja: „Þetta var aldrei í hættu hjá okkur í kvöld og mestu munaði að fá Söru Smiley inn í liðið og reynsluboltana Guggu (Guðrúnu Blöndal) og Birnu (Baldursdóttur). Þær hafa nánast ekkert verið með okkur í vetur og Gugga var bara að spila með SR þegar þær komu norður, bara svona að gamni sínu. Þær tvær eru rosalega sterkar og reyndar svo við efldumst mjög við að fá þær. Sarah eignaðist stelpu í nóvember og er að byrja aftur. Hún er frábær leiðtogi og allir líta upp til hennar svo það var extra gott að sjá hana aftur í búningi.“

En hvers vegna er Kristín látin axla þá ábyrgð að vera fyrirliði?

„Ég er búin að vera í þessu svo lengi. Ég byrjaði 12 ára í meistaraflokki og Sarah vildi hafa mig sem fyrirliða úti á vellinum til að hjálpa ungu stelpunum. Elise markmaður er eiginlega fyrirliðinn en þar sem hún er í marki þá vantaði fyrirliða út á svellið. Ég er líklega reyndasta stelpan af okkur yngri og var því valin. Það var náttúrlega geggjað að lyfta bikarnum. Þetta er alltaf jafnsætt og þetta er að ég held sjötti titillinn minn í meistaraflokki. Það er mikið uppbyggingastarf hér á Akureyri og stelpurnar flykkjast í hokkí. Sarah Smiley er að vinna frábært starf hérna og við eigum henni mikið að þakka,“ sagði hinn kornungi reynslubolti að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert