Þriggja marka tap gegn toppliði Króata

Anna Sonja Ágústsdóttir með pökkinn í leiknum gegn Króötum í …
Anna Sonja Ágústsdóttir með pökkinn í leiknum gegn Króötum í kvöld. mbl.is/Kristinn

Ísland tapaði í kvöld gegn sterku liði Króata, 3:0, í B-riðli 2. deildar HM í íshokkí kvenna í skautahöllinni í Laugardal. Króatar eru því með fullt hús stiga á toppi riðilsins en Ísland er með 3 stig eftir 3 leiki.

Nokkurt jafntræði var með liðunum fyrstu mínútur leiksins en svo fór króatíska liðið að sækja mun meira eftir því sem leið á leikinn. Staðan var enn markalaus eftir fyrsta leikhluta en fyrirliðinn Diana Posavec, sem sýndi frábæra takta í leiknum, skoraði fyrsta markið snemma í 2. leikhluta. Íslenska liðið fékk margoft brottvísanir í leiknum og það nýttu Króatarnir sér til að sækja stíft þó flestar sóknirnar enduðu með því að Karítas Halldórsdóttir næði að verja.

Posavec bætti við öðru marki sínu um miðjan lokaleikhlutann og Tijana Delic innsiglaði sigurinn í lokin, skömmu eftir langbestu marktilraun Íslands í leiknum þar sem Steinunn Erla Sigurgeirsdóttir var afar nærri því að minnka muninn í 2:1.

Næsti leikur Íslands er gegn Spáni annað kvöld kl. 20.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Ísland - Króatía, 0:3
(Diana Posavec 34., 47., Tijana Delic 57.)

60. Leik lokið.

57. MARK! (0:3) Þá eru úrslitin endanlega ráðin. Króatar bæta við þriðja markinu af harðfylgi og það gerði Tijana Delic, sem fékk að lokum pökkinn ein fyrir opnu marki eftir mikla þvögu.

55. Úff! Ísland svo nálægt því að minnka muninn. Diljá vann pökkinn með lúmskum hætti, lék svo á mann og annan og kom skoti á markið sem var naumlega varið. Steinunn fylgdi svo á eftir með skot af stuttu færi en það var einnig varið.

51. Bergþóra Bergþórsdóttir búin að taka út refsingu síðustu tvær mínútur en komin aftur inná. Króatarnir hafa reynt skot af nokkuð löngum færum sem Karítas á ekki í vandræðum með.

49. Smolec er komin aftur inná og slapp alein gegn Karítas eftir að Ísland missti boltann við miðlínuna. Karítas gerði hins vegar mjög vel og varði.

48. Ísland manni fleira næstu tvær mínútur. Þetta þarf að nýta.

47. MARK! (0:2) Besti maðurinn á svellinu, Diana Posavec, bætir við öðru marki sínu og Króata með föstu skoti sem Karítas var þó nálægt því að verja.

47. Posavec nálægt því að komast ein gegn markverði en Arndís Sigurðardóttir fylgdi henni vel eftir og neyddi hana til að skjóta úr þröngu færi.

46. Martina Smolec var kominn í dauðafæri fyrir Króata en á síðustu stundu kom Silja Gunnlaugsdóttir fljúgandi og stöðvaði hana með frábærri vörn. Smolec lá eftir og er studd af velli. Harka í þessu.

44. Búið að vera jafnt í liðum síðustu mínútur og það er mikið þægilegra að fylgjast með þessum leik þegar svo er. Nú fær pökkurinn aðeins að vera á vallarhelmingi Króata. Posavec átti reyndar fína marktilraun en Karítas varði skotið.

41. Hurðaviðgerð lokið og lokaþriðjungurinn hafinn. Ísland er manni færra í 38 sekúndur til viðbótar, með Katrin Ryan í kælingu. Munurinn er bara eitt mark. Koma svo!

41. „Steinunn! Þú skuldar okkur mark!“ heyrist kallað úr stúkunni. Steinunn Sigurgeirsdóttir tekur bara vel í það, vön að standa við sínar skuldir.

41. Það er enn bið á því að lokaþriðjungurinn hefjist. Leikmenn eru búnir að vera úti á ísnum í nokkrar mínútur en mér sýnist að verið sé að laga hurðina við varamannabekk íslenska liðsins. Því verki lýkur vonandi fljótt.

40. Leikhluta 2 lokið. Króatar náðu loks að brjóta ísinn og staðan er 1:0. Þær áttu nokkuð af hættulegum tilraunum í leihlutanum sem var íslenska liðinu erfiður enda var það sífellt að missa mann í skammarkrókinn. Karítas var áfram vel á verði í markinu og varði gott skot undir lok leikhlutans, og til marks um baráttuna þá voru þrír samherja hennar mættir til að koma pekkinum af hættusvæði.

39. Katrin Ryan send í kælingu. Rúm mínúta eftir af leihklutanum.

37. Ísland missir Flosrúnu af velli fyrir að setja of marga leikmenn inná í einu. Kjánaleg mistök. Spænski þjálfarinn við hliðina á mér býsnast yfir þessu.

36. Króatar nú manni færri í tvær mínútur en náðu samt stórhættulegri skyndisókn. Karítas bjargaði vel í tvígang.

34. MARK! (0:1) Jæja, þar kom að því. Fyrirliðinn Diana Posavec með frábært skot fyrir miðju marki sem hafnaði í netinu. Íslenska liðið búið að verjast hetjulega en þetta lá í loftinu.

34. Þær króatísku eru bara 6 á móti 5 hérna. Núna er Silja Gunnlaugsdóttir í skammarkróknum.

32. Enn tekst Króötum ekki að nýta sér að vera manni fleiri. Rétt eftir að liðin urðu jöfn að nýju fengu þeir hins vegar frábært færi en Karítas varði frá Önju Kadijevic sem fórnaði nánast höndum. Vonandi eitthvað vonleysi að grípa um sig hjá Króötunum.

30. Kristín Ingadóttir send í kælingu. Enn ein brottvísunin sem Ísland þarf að glíma við.

27. Jæja, aftur jafnt í liðum, sem betur fer. Búin að vera þung pressa að íslenska markinu. Posavec átti bestu tilraunina, skot í gegnum mikla þvögu en pökkurinn fór rétt framhjá.

24. Anna Sonja fyrirliði fær brottvísun. Þetta gætu orðið erfiðar tvær mínútur.

22. Annar leikhluti hafinn. Diljá Björgvinsdóttir sýndi lipra takta, lék á mann og annan en var svo stöðvuð af síðasta varnarmanni. Athugum að hún er aðeins 16 ára!

20. Leikhluta 1 lokið. Markalaust og við fögnum því. Króatarnir áttu hættulegri færi og pressuðu stíft að íslenska markinu manni fleiri í tvígang í seinni hluta leikhlutans. Íslenska vörnin var hins vegar oftast vel á verði og Karítas varði það sem á markið kom, meðal annars tvö dauðafæri. Ísland átti sínar sóknir, sérstaklega framan af, og Sarah Smiley átti til að mynda hættulegt skot rétt framhjá markinu.

18. Króatar pressa stíft að íslenska markinu en skotin hafna öll í Karítas og baráttan í vörninni er til fyrirmyndar.

17. Aftur fær Ísland refsingu. Elva Hjálmarsdóttir send af svellinu fyrir að fara með kylfuna of hátt.

14. Katrin Ryan fær fyrstu brottvísun Íslands. Nú þarf að standa af sér næstu tvær mínútur.

14. Hætta á ferð. Ana Siranovic komst ein gegn Karítas en hitti pökkinn sem betur fer illa. Staðan enn markalaus.

12. Sarah Smiley með fínt skot en pökkurinn fór rétt framhjá marki Króatanna.

11. Annar frábær sprettur hjá Posavec, fór í gegnum þrjár og komst ein gegn Karítas sem varði enn á ný. 

10. Fín byrjun hjá íslenska liðinu. Þær eiga í fullu tré við Króatana enn sem komið er.

6. Fyrirliði Króata, Diana Posavec, átti svakalegan sprett og skot sem Karítas sá við. Hún var svo aftur á ferðinni mínútu síðar en aftur varði Karítas. Mér leist samt ekkert á þennan sprett hjá Posavec.

4. Steinunn Sigurgeirsdóttir með tvær skottilraunir í röð, önnur var varin en hin var úr þröngu færi og fór í netið utanvert.

3. Króatar missa mann af velli í tvær mínútur. Slíka stöðu hefur Ísland ekki nýtt nógu vel til þessa í mótinu.

2. Ágæt byrjun hjá Íslandi en fyrsta sókn Króata er hættuleg. Anja Kadijevic komst í gott færi vinstra megin en Karítas lokaði markinu vel og varði.

1. Leikur hafinn.

0. Þá renna liðin sér inná. Þetta fer sem sagt að byrja.

0. Staðan í riðlinum er því þannig að Króatía, Spánn og Slóvenía eru öll með 6 stig, Ísland 3, Belgía 2 og Tyrkland 1. Með draumaúrslitum, íslenskum sigri sem sagt, yrðu því fjögur lið jöfn að stigum í 1.-4. sæti fyrir síðustu tvær umferðirnar.

0. Fyrr í dag vann Slóvenía öruggan 4:0-sigur á Belgíu og Spánn vann Tyrkland 6:3 þar sem spennan var meiri. Tyrkir minnkuðu muninn í 4:3 í lokaleikhlutanum en komust ekki nær.

0. Korter í leik og það mættu nú vera fleiri áhorfendur mættir, en Íslendingar eru svo sem ekki þekktir fyrir að mæta sérstaklega snemma. Sigmundur Davíð, lukkutröll með meiru, er ekki á pöllunum í þetta sinn.

0. Ég var að ræða við Ben þjálfara hérna og hann er mátulega bjartsýnn fyrir leikinn; segir allt geta gerst þó Króatar virðist vera með sterkasta liðið í mótinu. Hann fylgist ásamt aðstoðarfólki sínu með upphitun leikmanna hér á svellinu og segir þær allar klárar í slaginn.

0. Þegar mótið fór fram á Spáni í fyrra urðu Króatar í 3. sæti en Ísland í 4. sæti. Króatía vann leik þjóðanna 5:4 eftir að Sarah Smiley skoraði tvö mörk í lokaþriðjungnum. Hún skoraði alls þrennu í leiknum og Steinunn Sigurgeirsdóttir eitt. Þær endurtaka vonandi leikinn í kvöld.

0. Króatar eru líklegastir til að vinna riðilinn, og koma sér þar með upp í A-riðil, eftir sterka sigra í fyrstu tveimur leikjunum, gegn Spáni og Slóveníu. Það má því búast við jafnvel enn erfiðari leik í kvöld en þegar Ísland mætti Slóvenum í fyrrakvöld. Þar skoruðu Linda Sveinsdóttir og Guðrún Marín Viðarsdóttir mörkin í 5:2-tapi.

0. Ben DiMarco þjálfari hefur sagt að markmiðið sé að ná verðlaunasæti hér á heimavelli. Þá þarf liðið að vinna a.m.k. annað hvort Króatíu eða Spán, og svo Belgíu í lokaumferðinni á sunnudag.

0. Velkomin í beina textalýsingu hér úr Laugardalnum frá þriðja keppnisdegi. Leikmenn fengu kærkomna hvíld frá leikjum í gærkvöldi en spila nú aftur tvo daga í röð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka