Spænskur sigur og verðlaunasætið úti

Steinunn Sigurgeirsdóttir og Kristín Ingadóttir í baráttu um pökkinn í …
Steinunn Sigurgeirsdóttir og Kristín Ingadóttir í baráttu um pökkinn í leiknum í kvöld. mbl.is/Golli

Íslenska kvennalandsliðið í íshokkí nær ekki að enda í verðlaunasæti 2. deildar heimsmeistaramótsins sem fram fer í Laugardalnum þessa dagana. Það varð endanlega ljóst í kvöld eftir að liðið tapaði fyrir Spánverjum, 3:0.

Spænska liðið komst yfir á 12. mínútu en íslensku stelpurnar sýndu góða baráttu og fengu mörg úrvalsfæri. Það gekk hins vegar illa að nýta þau og það kom í bakið á liðinu um miðbik annars leikhluta þegar þær spænsku tvöfölduðu forystu sína. Staðan var því ekki vænleg fyrir þriðja og síðasta hluta.

Þar var baráttan mikil og bæði lið fengu sín færi. Bæði lið voru nokkuð í boxinu síðustu mínúturnar og þegar íslenska liðið var með tvo leikmenn í kælingu bættu þær spænsku við þriðja markinu. Lokatölur 3:0.

Síðasti leikur Íslands er gegn Belgíu á sunnudagskvöld klukkan 20.

Fylgst var með gangi mála í beinni hér á mbl.is en nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun auk þess sem viðtöl birtast hér á vefnum síðar í kvöld.

60. Leik lokið. Verðlaunasæti er því runnið úr greipum íslenska liðsins.

60. Ísland lék síðustu sekúndurnar tveimur leikmönnum fleiri en það kom ekkert úr því, tíminn var of naumur.

59. MAARK! Staðan er 0:3. Guðrún Marín fór í kælingu og íslenska liðið tveimur færri. Það voru þær spænsku fljótar að nýta sér og kom Alba Calero pökknum yfir línuna eftir að Karitas hafði varið skot.

57. Jæja þar fór það forskot. Diljá fer í kælingu og sléttar þrjár mínútur eftir. 

56. 4 mínútur eftir og þær spænsku fá kælingu. Einum fleiri næstu tvær mínúturnar sem einfaldlega verður að koma að gagni!

56. Hörkusprettur fram hjá Lindu Sveinsdóttir en skot hennar naumlega varið. Tíminn er að hlaupa frá íslenska liðinu.

51. Jónína aðstoðarfyrirliði lætur sig ekki muna um að vaða upp allt svellið á eftir pökknum þrátt fyrir að þær spænsku séu í yfirtölu...Vá! þarna fengu margir fyrir hjartað og þar á meðal ég. Óvænt skot að marki sem Karitas ver en pökkurinn dettur niður meðfram stönginni og stoppar á línunni áður en Karitas nær að frysta. Þarna skall hurð ekki bara nærri hælum heldur beint á þá! Spænskur leikmaður kemur í boxið á sama tíma og íslenska liðið fær sinn mann inn á ný.

49. Þær spænsku sækja stíft núna. Ekki bætir úr skák að nú fer Lilja Sigfúsdóttir í kælingu í tvær langar mínútur.

46. Það verður ekki af áhorfendum tekið að þeir eru vel með á nótunum og er það vel. Það vantar alltaf herslumuninn, eins og áður segir eru færin til staðar en að klára þau er annað mál. 14 mínútur eftir.

43. Við skulum ekki gleyma því að íslenska liðið byrjaði þriðja hluta í yfirtölu. Það er ekki nægilega gott að fá á sig stangarskot í þeirri stöðu. Nú er önnur kæling á spænska liðið, það þarf að gera betur núna.

42. Vá! Spænska liðið byrjar þriðja hluta með stangarskoti eftir þunga sókn. Koma svo stelpur!

40. Öðrum leikhluta lokið, staðan er 0:2. Það var vont að fá þetta annað mark á sig en þær eru ekkert búnar að gefast upp, stelpurnar okkar. Nú rétt fyrir hlé fór spænskur leikmaður í kælingu svo íslenska liðið byrjar þriðja hluta í yfirtölu. Það hefur ekki gengið nægilega vel að nýta það en nú er um að gera að breyta því!

39. Baráttan hefur verið í fyrirrúmi núna og það gefur enginn tommu eftir inni á svellinu, hvorki íslensku leikmennirnir né þeir spænsku. 

35. Íslenskir stuðningsmenn eru með trommur og hér er líka einn með gjallarhorn að öskra. Þetta virðist efla stelpurnar sem gefa sig allar í þetta... Vá nú flaug pökkurinn út af svellinu, framhjá öryggisnetinu og upp í stúku. Sem betur fer sat enginn uppi í horninu!

33. Stelpurnar öskra hver aðra áfram, þær eru ekkert á því að gefast upp enda engin ástæða til! Þær hafa verið að gera sig líklegar í sóknarsvæði spænska liðsins en það er erfitt að finna glufur framhjá Alvarado í spænska markinu.

31. MAARK! Staðan er 0:2. Nei þetta er blaut tuska í andlitið og það ísköld. Eftir flotta frammistöðu síðustu mínútur svarar spænska liðið með marki. Vega Munoz var alein fyrir framan markið og átti ekki í vandræðum með að skora, stöngin inn.

28. Já, meira svona! Guðrún Marín á fljúgandi siglingu upp svellið og lætur vaða af löngu færi. 

27. Það gengur betur hjá stelpunum núna. Diljá er síógnandi í framlínunni og lætur spænsku varnarmennnina ekki í friði. Anna Sonja átti nú rétt áðan hörkuskot sem var naumlega varið.

23. Það hefur verið svolítið gegnumgangandi að illa gengur að hreinsa pökkinn úr varnarsvæði Íslands. Það hefur nú í tvígang næstum orðið liðinu að falli þar sem atgangurinn hefur verið mikill fyrir framan markið. Nú er kæling á íslenska liðið svo ekki batnar það.

21. Úff, spænska liðið fær dauðafæri strax á fyrstu sekúndum annars leikhluta. Það má ekki gleyma sér stelpur!

20. Fyrsta leikhluta lokið, staðan er 0:1. Íslenska liðið var mun betra síðustu mínútur leikhlutans eftir rólega byrjun. Eina markið var hins vegar spænskt og það þarf að vinna það upp. Ef stelpurnar halda dampi þá er engin spurning að markið mun koma.

20. Karitas bjargar eftir að Laura Alvardo slapp ein í gegn. Sóknarþungi íslenska liðsins hefur verið mikill síðustu mínútur, þetta er allt að koma!

16. Flottur kafli hjá stelpunum. Þær eru að þjarma vel að þeim spænsku og nú átti Hrund Thorlacius enn eitt skotið.

14. Það vantar ekki kraftinn í íslenska liðið. Diljá átti ágætt skot eftir góðan undirbúning frá Önnu Sonju en þarf að leita leiða framhjá Alvaro í spænska markinu.... Nú var Flosrún Jóhannesdóttir að komast í gegn en Alvaro stendur vaktina vel.

12. Spænska liðið hefur ráðið ferðinni en íslenska liðið hefur hins vegar ógnað vel í skyndiáhlaupum sínum. En það er af sem áður var, það gengur ekki nægilega vel að klára færin.

9. MAARK! Staðan er 0:1. Þær refsa nánast um leið og íslenska liðið fór í kælingu. Markið skoraði fyrirliðinn Maria Gurrea sem komst ein gegn Karitas eftir mikinn sprett. Stoðsendingu átti Lorena Ortuno.

9. Vá! Þær spænsku hafa greinilega unnið heimavinnuna sína vel, mjög vel. Íslenska liðinu varð ekkert ágengt þrátt fyrir að vera einum fleiri og þær komust varla inn í varnarsvæði andstæðingsins. Allt í einu var allt galopið í íslensku vörninni en Karitas var sem betur fer vel á verði. Í kjölfarið fær íslenska liðið kælingu og því fór þetta power play fyrir lítið.

8. Þær eru beinskeyttar íslensku stelpurnar. Spænska liðið missti pökkinn og Thelma Guðmundsdóttir átti hörkuskot sem Carlota Alvarado varði vel. Hún hefur gert það nokkrum sinnum hér í upphafi leiks. Spænska liðið fær í kjölfarið fyrstu refsinguna í leiknum og fyrsta „power play-ið“ er því íslenskt.

6. Hörkusókn hjá Íslandi. Spænskur leikmaður reyndi skot af löngu færi, beint í Önnu Sonju fyrirliða sem vann pökkinn og geystist fram. Bergþóra Bergþórsdóttir rak smiðshöggið á sóknina en skot hennar var vel varið.

3. Spænska liðið byrjar af miklum krafti og tók pökkinn nánast strax af íslenska liðinu í upphafi leiks. Nú var Diljá Björgvinsdóttir hins vegar að komast í gegn og átti fyrsta skot íslenska liðsins sem var þó ágætlega varið.

1. Leikurinn er hafinn. Góða skemmtun segi ég nú bara!

0. Þá renna liðin sér inn á ísinn, formlegri kynningu er lokið og einungis þrjár mínútur til stefnu, samkvæmt vallarklukku. Áhorfendum hefur fjölgað mikið síðustu mínúturnar því eins og við vitum þá eru Íslendingarnir blessaðir ekki þeir stundvísustu í þessum heimi.

0. Þá hringir bjalla og það þýðir að leikmenn eiga að kom sér inn í klefa. Það eru tuttugu mínútur til stefnu og það hefur aðeins bæst í stúkuna. Hingað hjá mér var meðal annars að setjast Einar Sigtryggsson, sérlegur hokkísérfræðingur mbl.is á Akureyri!

0. Leikmenn æfa skotin í gríð og erg, en það hefur einmitt verið veiki hlekkur íslenska liðsins í þessu móti. Það gengur ágætlega að skapa sér færi en það að klára þau er annað mál. Það vantar hins vegar ekki ákveðnina og hún hefur verið aðalsmerki liðsins það sem af er þessu móti.

0. Þá vaknar plötusnúðurinn í höllinni um leið og liðin renna sér út á ísinn til upphitunar. Miðað við lagalistann þá er hann í föstudagsgírnum og við fögnum því, það þýðir ekkert annað.

0. Það eru enn rúmar 45 mínútur til stefnu og því hef ég stúkuna nánast alveg útaf fyrir mig enn sem komið er. Það eru þó nokkrar belgískar landsliðskonur sem sleikja sárin hér fyrir neðan mig og vonleysið er mikið í andlitum þeirra eftir ósigurinn áðan. Þær fá þó daginn á morgun til undirbúnings rétt eins og hin liðin áður en þær mæta íslensku stelpunum á sunnudag í síðasta leiknum og byrjar hann klukkan 20.

0. Eins og áður í þessari keppni er leikur Íslands klukkan 20 og það þýðir að tveir leikir fóru fram fyrr í dag. Það er ekki hægt að segja að spennan hafi verið mikil í þeim því fyrst vann Slóvenía lið Tyrklands 8:1 áður en Króatía sigraði Belgíu, 8:0. Ég get þó lofað að spennan verður meiri í þessum leik.

0. Velkomin með mbl.is hingað í Laugardalinn á þessu gullfallega föstudagskvöldi. Hér erum við að fylgjast með viðureign Íslands og Spánar í íshokkíi, leikur þar sem allt er undir fyrir stelpurnar okkar. Ég verð nú að segja að persónulega er ég orðinn ansi spenntur.

Thelma Guðmundsdóttir á fleygiferð í leiknum í kvöld.
Thelma Guðmundsdóttir á fleygiferð í leiknum í kvöld. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka