Jákvæð teikn eru á lofti hjá íslenska kvennalandsliðinu í íshokkí, en vissulega voru það vonbrigði að ná ekki í verðlaun. Þetta er skoðun Lindu Brár Sveinsdóttur, landsliðskonu Íslands, sem Morgunblaðið fékk í gær til að gera upp keppni íslenska liðsins í B-riðli 2. deildar heimsmeistaramóts kvenna í íshokkí. Ísland lauk keppni í 4. sæti með 6 stig.
„Við ætluðum okkur auðvitað alltaf að komast á verðlaunapall og mér finnst mjög sárt að hafa ekki náð því. En við erum samt alls ekki óánægðar, því við stóðum okkur ekki illa. Liðið var mjög sterkt, en því miður voru hin liðin líka sterk. Þannig að við náðum ekki okkar markmiði að komast á pall. En við verðum bara að æfa meira og koma sterkari til leiks á næsta ári,“ sagði Linda Brá sem finnst munurinn á íslenska liðinu og liðunum þremur sem enduðu fyrir ofan Ísland í riðlinum ekki svo svakalega mikill.
Áhuginn á landsliðinu hefur líka aukist og landsliðskonunum tókst að fá Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra til að mæta á fyrsta leikinn í riðlinum, en í þeim leik sigruðu Íslendingar lið Tyrklands, 3:2. „Það var mjög gaman að hann skyldi koma. Við áttum ekkert endilega von á því. En það var skemmtilegt að fylgjast með honum í stúkunni lifa sig inn í leikinn, fagna mörkunum okkar og klæðast treyju eins og við lékum í,“ segir Linda sem telur að áhugi Sigmundar Davíðs endurspegli aukinn áhuga á liðinu.
Nánara uppgjör á riðil Íslands á HM í íshokkí og frekara viðtal við Lindu Brá Sveinsdóttur má sjá í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.