„Þetta á að vera besta liðið í þessum riðli, og bera höfuð og herðar yfir öll hin liðin. Fyrst við stóðum svona í þeim getum við alveg sett þá kröfu að við vinnum næstu leiki,“ sagði Jón Benedikt Gíslason, aðstoðarfyrirliði, eftir 4:1-tap Íslands gegn Eistlandi í fyrsta leik á HM í íshokkíi í dag.
Eistland komst yfir í fyrsta leikhluta en Ísland jafnaði metin í 2. leikhluta með marki Emils Alengård. Eistar skoruðu tvö mörk í kjölfarið og innsigluðu sigurinn með fjórða markinu í lokaleikhlutanum. Lesa má lýsingu frá leiknum HÉR.
„Þeir nýttu sér það þegar við gerðum mistök. Þeir refsa hratt og eru mjög góðir. Við hefðum þurft að fækka mistökunum til að geta unnið þá í dag en við gerðum þeim samt sem áður erfitt fyrir. Þeir áttu erfitt með að komast inn í boxið hjá okkur, fyrir framan markið, og við fengum líka okkar færi. Ef við hefðum náð að nýta 1-2 þeirra snemma leiks þá hefði leikurinn getað endað öðruvísi,“ sagði Jón.
„Þetta er fyrsti leikurinn sem við náum á móti þeim sem er alveg alvöru leikur, jafn og spennandi og hefði getað farið á hvorn veginn sem var. Það er mjög ánægjulegt að sjá að við erum að koma með sterkasta lið inn í þetta mót sem við höfum nokkurn tímann verið með þannig að við erum bara mjög bjartsýnir,“ sagði Jón.