Tap gegn Eistlandi í fyrsta leik

Pétur Maack tilbúinn að vinna pökkinn í leiknum gegn Eistlandi …
Pétur Maack tilbúinn að vinna pökkinn í leiknum gegn Eistlandi í dag. Ljósmynd/IIHF

Ísland tapaði í dag gegn Eistlandi, 4:1, í fyrsta leik sínum í A-riðli 2. deildar HM í íshokkíi karla. Næsti leikur Íslands er gegn Belgíu á morgun kl. 14.30 að íslenskum tíma.

Eistlendingar léku í 1. deild í fyrra og eru fyrir fram taldir sterkasta liðið í mótinu. Þeir sýndu mátt sinn í fyrsta leikhluta, pressuðu þá íslenska liðið á tíðum stíft og uppskáru mark rétt fyrir lok leikhlutans.

Íslenska liðið mætti hins vegar af krafti í 2. leikhluta og átti Emil Alengård meðal annars gott skot sem var varið. Hann náði hins vegar að skora skömmu síðar og jafna metin, 1:1, þegar leiktíminn var um það bil hálfnaður. Eistland komst aftur yfir strax í kjölfarið og bætti við þriðja markinu úr skyndisókn. Íslenska liðið reyndi hvað það gat að minnka muninn í lokaleikhlutanum og fékk ágæt færi til þess en Eistarnir gerðu út um leikinn með fjórða marki sínu sjö mínútum fyrir leikslok.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is. Viðtöl koma hér inn síðar í dag og fjallað verður um leikinn líkt og aðra leiki Íslands á mótinu í Morgunblaðinu.

60. Leik lokið. Sanngjarn sigur Eistlendinga í höfn, 4:1.

57. Þrjár mínútur og Eistland að missa mann af velli. Strákarnir geta gert lokaáhlaup.

53. MARK! (1:4) Eistlendingar að gera út um leikinn. Andrejev átti fast skot af löngu færi sem Aleksandr Ossipov stýrði í markið.

50. Sigurður Reynisson, sem kallaður var inn í hópinn á síðustu stundu, var nálægt því að minnka muninn. Hann átti skot af löngu færi sem markvörður Eista varði og náði sjálfur frákastinu en hitti pökkinn illa í mjög góðu færi.

47. Eistar eru aftur manni færri. Robin var að reyna skot úr frekar þröngu færi. Það var fast en varið af öryggi.

43. Eistarnir missa mann af velli í tvær mínútur fyrir að krækja í Emil. Þeir náðu samt hættulegri skyndisókn sem lauk með örlítið misheppnaðri sendingu uppi við markið.

41. Titarenko skoraði og virtist hafa komið Eistlendingum í 4:1 en Dennis markvörður er æfur og lætur dómarana vita af því að markið hafi ekki verið á sínum stað og að lokum er ákveðið að markið telji ekki. Hjúkketí.

41. Lokaátökin hafin.

40. Leikhluta 2 lokið. (1:3) Það var betra að sjá til íslenska liðsins í þessum leikhluta og Emil Alengård jafnaði metin eftir góða sókn. Eistlendingar komust hins vegar fljótt aftur yfir og bættu við þriðja markinu úr skyndisókn, svo staðan er 3:1 fyrir síðustu 20 mínúturnar.

39. Hætta við mark Íslands en sem betur fer mistókst Eistlendingnum að ná skoti, rétt fyrir utan markið. Orri Blöndal var að brjóta illa af sér og fær 10 mínútna hvíld í skammarkróknum. Brynar Bergmann situr með honum fyrstu 2 mínúturnar ef Eistland skorar ekki.

37. Jafnræði með liðunum þessar mínúturnar. Ísland hefur ekki verið að skapa sér færi til að minnka muninn.

33. MARK! (1:3) Ísland var í sókn en missti pökkinn og Eistlendingar geystust í skyndisókn. Roman Andrejev komst einn gegn Dennis, náði að teygja sig út fyrir hann og skila pekkinum í netið.

29. MARK! (1:2) Jæja, Adam ekki lengi í paradís. Valeri Bobkov slapp í gott færi en Dennis varði skot hans með naumindum. Pökkurinn féll hins vegar fyrir Vassili Titarenko sem skoraði auðveldlega í tómt markið.

28. Það var enginn heppnisstimpill yfir þessu marki. Mun betra að sjá til Íslands í þessum leihkluta og áfram skal haldið. Jónas Breki átti fínt skot eftir skyndisókn en það var varið.

27. MARK! (1:1) Jááááá! Ísland búið að jafna metin! Þetta var sérlega vel gert. Robin fór með pökkinn aftur fyrir miðlínu og setti svo á fulla ferð, lék á einn og sendi svo til hliðar á Emil Alengård sem þrumaði efst í hægra hornið.

26. Ísland komið með fullskipað lið en Eistarnir að missa mann af velli. Nú þarf að nýta liðsmuninn.

24. Íslendingar manni færri. Andri Már Helgason sendur í skammarkrókinn.

23. Úff. Íslensku varnarmennirnir misstu pökkinn á miðjunni og Andrei Makrov komst einn gegn Dennis en skaut í stöng!

23. Þung sókn hjá íslenska liðinu, menn að láta pökkinn ganga vel á milli sín, og Emil átti að lokum hnitmiðað skot sem markverði Eistlands tókst samt að verja.

21. Emil með stórgóða sendingu frá vinstri þvert fyrir markið og minnstu munaði að Robin kæmi kylfunni í pökkinn og næði að jafna metin.

21. Þá er annar leikhluti hafinn.

20. Leikhluta 1 lokið. (0:1) Eistlendingar eru svo sem vel að forskotinu komnir en það var sárt að sjá pökkinn klöngrast svona í markið. Þeir höfðu fengið betri færi til að skora. Markvörður Eistlands hefur ekki átt í miklum vandræðum með að verja þau fáu skot sem okkar menn hafa náð til þessa.

19. Eistland var að missa mann af velli og er jafnt í liðum næstu mínútuna. Strákarnir geta svo kannski gert áhlaup í lok leikhlutans.

17. MARK! (0:1) Djö... Eistlendingar hafa náð forystunni. Þeir voru með pökkinn fyrir aftan mark Íslands og gáfu út á Valeri Bobkov sem átti skot sem með miklum naumindum komst í gegnum vörnina og Dennis í markið. Grátlegt.

16. Andrei Makrov reynist íslenska liðinu erfiður. Hann lék á mann og annan og komst í gott færi en enn varði Dennis.

16. Nú var Ísland að missa Birki Árnason af velli. Jafnt í liðum í 20 sekúndur en svo verður þetta strembið!

14. Íslendingar aftur manni fleiri. Okkar prúðu piltar hafa ekki fengið brottvísun.

14. Aftur stórhætta við mark Íslands en Dennis tókst með hjálp varnarmanna með naumindum að halda pekkinum utan marklínunnar.

10. Reynt að finna skotfæri fyrir Robin sem náði í 2. tilraun ágætu skoti en það var varið. Eistarnir eru nú komnir með fullskipað lið.

8. Eistar fá fyrstu brottvísunina. Nú getur Ísland sótt.

7. Stórhætta eftir að Emil missti pökkinn á miðjunni og Eistarnir komust tveir gegn einum varnarmanni en Dennis varði að lokum úr dauðafæri.

5. Eistland sækir áfram stíft en Dennis sér við öllu sem á markið kemur. Jónas Breki virðist þegar farinn að fara í taugarnar á einum Eistlendingnum, sem er að vissu leyti hans hlutverk. Ísland var að ná sinni langbestu sókn til þessa, enda með sína sterkustu sóknarlínu inná, sem endaði með skoti frá Jóni Benedikt Gíslasyni en það var varið.

2. Eistlendingar ágengir uppi við mark Íslands. Andrei Makrov átti gott skot sem Dennis varði vel.

1. LEIKUR HAFINN! Áfram Ísland!

0. Ingvar Þór Jónsson fyrirliði heilsar dómaratríóinu. Aðaldómari leiksins er frá Slóveníu en aðstoðarmenn hans frá Serbíu og Póllandi.

0. Þá er íslenska liðið komið aftur út á svellið eftir stuttan pepp-fund í klefanum.

0. Eistlendingarnir eru flestallir atvinnumenn í faginu, og spila margir í Svíþjóð eða Finnlandi. Þjálfari þeirra er Sakari Pietilä sem hefur þjálfað í efstu deild Svíþjóðar, verið aðstoðarþjálfari finnska landsliðsins og njósnað fyrir NHL-liðið Chicago Blackhawks. Maður með ágæta ferilskrá sem sagt.

0. Sagan er ekki beinlínis í liði með okkur í dag en höfum í huga að Ísland hefur verið á hraðri uppleið síðustu ár. Liðin hafa þrívegis mæst á HM og Eistland alltaf unnið stórsigra. Sá fyrsti var hér í Serbíu 2009 og fór 16:1, í Eistlandi 2010 fóru leikar 6:1, og í Reykjavík fyrir tveimur árum unnu Eistlendingar 7:2-sigur. Robin Hedström og Emil Alengård skoruðu mörk Íslands í síðastnefnda leiknum.

0. Ég hitti leikmann eistneska liðsins í gærkvöld og reyndi að fiska upp úr honum helstu leynivopn liðsins. Sá var hins vegar þögull sem gröfin - vildi ekkert gefa upp. Þegar ég hugsa betur um það þá er ég reyndar ekki viss um að hann hafi skilið enskuna mína sérstaklega vel.

0. Nú eru tæpar 40 mínútur í leik og leikmenn nýkomnir út á svellið til að hita upp.

0. Tim Brithén landsliðsþjálfari segir alla leikmenn í góðu standi og tilbúna í leikinn. Þó heyrðist mér okkar öflugi markvörður, Dennis Hedström, eitthvað vera að kveinka sér vegna eymsla í öxl og Robin bróðir hans hefur verið að glíma við ökklameiðsli.

0. Eistland er fyrir fram talið sterkasta liðið í riðlinum en liðið spilaði í 1. deild á síðasta ári. Leikurinn í dag verður því níðþungur fyrir okkar menn en þeir eru brattir og klárir í slaginn. Vonast var til að fyrirliði Eistlendinga, reynsluboltinn Lauri Lahesalu, yrði ekki með en hann er mættur til leiks.

0. Góðan dag! Mbl.is heilsar héðan úr Pionir-höllinni í Belgrad þar sem keppni í A-riðli 2. deildar heimsmeistaramótsins fer fram að þessu sinni. Sex lið eru mætt til leiks og bítast um eitt laust sæti í 1. deild að ári. Neðsta liðið fellur niður í B-riðil 2. deildarinnar.

Íslenski hópurinn:
Andri Freyr Sverrisson, Andri Már Helgason, Andri Már Mikaelsson, Birkir Árnason, Björn Már Jakobsson, Brynjar Bergmann, Dennis Hedström (M), Emil Alengard, Ingólfur Tryggvi Elíasson, Ingvar Þór Jónsson, Ingþór Árnason, Jóhann Már Leifsson, Jón Benedikt Gíslason, Jónas Breki Magnússon, Orri Blöndal, Ólafur Hrafn Björnsson, Pétur Maack, Robin Hedström, Róbert Freyr Pálsson, Sigurður Reynisson, Snorri Sigurbergsson, Úlfar Jón Andrésson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert