Brithén: Engar bjánalegar brottvísanir í dag

Tim Brithén ætlar sér sigur gegn Belgum í dag.
Tim Brithén ætlar sér sigur gegn Belgum í dag. mbl.is/Styrmir Kári

Tim Brithén landsliðsþjálfari karla í íshokkíi segir liðið ekki hafa efni á „bjánalegum“ brottvísunum gegn sterku liði Belgíu í dag, í A-riðli 2. deildar HM sem stendur yfir í Serbíu.

Ísland tapaði fyrsta leik mótsins gegn Eistlandi í gær, 4:1, en um kvöldið mættu Belgar heimamönnum og unnu sannfærandi sigur, 8:3.

„Þetta varð ansi stór munur vegna þess að Serbarnir gáfust eiginlega upp og hættu að reyna,“ sagði Brithén sem lauk við að kortleggja Belgana eftir að hafa horft á leikinn í gærkvöld.

„Belgarnir spiluðu með frekar kanadískum hætti en þeir reyndu samt líka að halda pekkinum og skapa sér eitthvað. Serbarnir eru stórir og sterkir og spila einnig með kanadískum hætti. Þá á ég við að pekkinum er komið þægilega í burtu frá markinu og framherjarnir eru frekar framarlega, leikmennirnir eru stórir og sterkir og skjóta fast að marki. Belgarnir vilja spila mjög líkamlegan leik, en ég held að við viljum það sömuleiðis,“ sagði Brithén.

„Við verðum að gæta okkar sérstaklega á því þegar þeir eru manni fleiri. Þeir eru með mjög klóka leikmenn sem geta búið sér eitthvað til í þannig stöðu. Vonandi fáum við því engar bjánalegar brottvísanir í dag. Ég vona að menn sem fengu að hvíla sig á bekknum fyrir slíkt í gær séu reynslunni ríkari. Þeir fá nýtt tækifæri í dag,“ sagði Brithén og vísaði til leikmanna á borð við Orra Blöndal og Brynar Bergmann. Báðir gerðu sig seka um óþarfa brot og Orra var vísað af velli í 10 mínútur fyrir kjaftbrúk.

Í góðum málum með sama leik og í gær

Ætli Ísland sér að ná í silfurverðlaun, eins og björtustu vonir standa nú til, þarf liðið að leggja Belga að velli í dag. Belgar unnu 4:1-sigur gegn Íslandi í fyrra.

„Þeir eru ekkert langt á eftir Eistlandi en Eistar eru með besta liðið hérna, það er alveg ljóst. Ef við mætum í leikinn í dag eins og gegn Eistum í gær þá eigum við fína möguleika,“ sagði Brithén.

„Frammistaðan í gær var góð. Við spiluðum mjög vel og samkvæmt okkar leikskipulagi, en töpuðum einfaldlega vegna þess að þeirra einstaklingar búa yfir meiri hæfileikum. Við höfðum ekki orkuna til að halda einbeitingu allan leikinn og um leið og hún hvarf þá refsuðu þeir okkur. Svo bættust brottvísanirnar við. Við erum góðir í að bregðast við því en það er gríðarlega erfitt gegn andstæðingi á borð við Eistland og verður það líka gegn Belgíu,“ bætti hann við.

Leikur Íslands og Belgíu hefst kl. 14.30 að íslenskum tíma og er í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert