Sögulegur sigur á Belgum

Jóhann Már Leifsson reynir hér að koma pekkinum framhjá markverði …
Jóhann Már Leifsson reynir hér að koma pekkinum framhjá markverði Belga í leiknum í dag. Ljósmynd/IIHF

Ísland vann í dag glæstan sigur á Belgíu í fyrsta sinn í sögunni, 6:3, þegar liðin mættust í Belgrad í dag í A-riðli 2. deildar HM karla í íshokkíi. Belgar voru 3:2 yfir fyrir þriðja og síðasta leikhlutann.

Þessi sögulegi sigur gerir það að verkum að Ísland á nú góða möguleika á verðlaunum í mótinu, en Belgar fengu silfur í Króatíu fyrir ári síðan. Þeir höfðu unnið heimamenn í Serbíu 8:3 í fyrstu umferðinni í gær.

Leikurinn byrjaði með látum en Belgar komust yfir strax á 3. mínútu. Jón Benedikt Gíslason jafnaði metin fljótt en Belgarnir skoruðu í næstu sókn. Robin Hedström jafnaði metin á nýjan leik, eftir undirbúning Jóns og staðan 2:2 eftir 1. leikhluta.

Það var búist við mikilli hörku í leiknum og sú varð raunin þegar á leið 2. leikhluta. Þá sauð gjörsamlega allt upp úr. Um tíma voru jafnmargir leikmenn í refsiboxinu og úti á svellinu. Leikurinn virtist hreinlega hættur að snúast um að skora mörk en Belgar gerðu eitt og voru 3:2 yfir fyrir lokaátökin.

Robin jafnaði metin fyrir Ísland snemma í 3. leikhluta, eftir að Emil Alengård sendi hann einn gegn markverði. Jón kom Íslandi svo yfir við gríðarlegan fögnuð 10 mínútum fyrir leikslok, og hinn 19 ára gamli Brynjar Bergmann gerði nánast út um leikinn þegar hann skoraði rúmum fjórum mínútum fyrir leikslok, eftir sendingu frá öðrum táningi, Sigurði Reynissyni. Robin innsiglaði sigurinn og þrennu sína með auðveldu marki í lokin.

Ísland er því með þrjú stig eftir leiki gegn liðum sem talin voru tvö bestu lið riðilsins.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is. Viðtöl koma inn síðar í dag og fjallað verður um leikinn líkt og aðra leiki mótsins í Morgunblaðinu.

Ísland - Belgía, 6:3
(Jón Benedikt Gíslason 6., 50., Robin Hedström 15., 43., 60., Brynjar Bergmann 56. - Jens Engelen 3., Vincent Morgan 7., Don Geerts 31.)

60. Leik lokið. Stórglæsilegur sigur Íslands í höfn! Robin Hedström er valinn besti maður liðsins enda skoraði hann þrennu en það voru heldur betur fleiri sem skiluðu sínu vel í dag.

60. MARK! (6:3) Já, já, já! Robin Hedström innsiglar sigurinn með skoti yfir völlinn í tómt mark Belganna sem höfðu fjölgað í sókn sinni.

59. Belgar vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Taka leikhlé til að reyna að ráða ráðum sínum.

56. MARK! (5:3) Jáááá! Sögulegir hlutir í uppsiglingu. Fyrsti sigurinn á Belgum er innan seilingar eftir þetta. Unglingarnir sáu um þetta. Sigurður Reynisson vann pökkinn og kom honum á Brynjar Bergmann sem skoraði með snöggu skoti. Frábært!

55. Íslenska vörnin er gríðarlega vel vakandi og Belgarnir hafa ekki skapað sér sérstök færi til að jafna metin. 

50. MARK! (4:3) Ísland er komið yfir! Emil var með pökkinn vinstra megin og á leið aftur fyrir markið þegar hann sendi aftur fyrir sig á Jón Benedikt Gíslason sem klíndi pekkinum efst í markið. Stórglæsilegt!

49. Jóhann Már Leifsson og Pétur Maack með ágætis skottilraunir en  markvörður Belga sá við þeim. Jón, Emil og Robin koma nú inná.

48. Belgar missa Mitch Morgan af velli eftir að hann krækti aftan í Orra. Tækifæri til að komast yfir í fyrsta sinn í leiknum.

44. Jón og Emil að spila pekkinum vel á milli sín og Emil komst í gott færi en náði ekki að koma skoti á markið.

43. MARK! (3:3) JÁ!!! Fjórða mark Íslands á mótinu en aldrei hefur bekkurinn fagnað eins innilega, enda mikið gengið á. Robin Hedström vann pökkinn við miðlínuna, tók þríhyrningsspil við Emil og var þá sloppinn einn gegn markverði, lék á hann og skoraði.

42. Jafnt í liðum og loksins búið að tæma refsiboxið hjá Íslandi. Nú þarf að jafna leikinn!

41. Lokahlutinn hafinn. Fjórir útileikmenn hjá Íslandi en Belgar voru að fá fimmta mann sinn.

40. Leikhluta 2 lokið. Það er óhætt að segja að hitinn hafi verið skrúfaður upp fyrir öll leyfileg mörk hérna í þessum leikhluta. Maður var búinn að bíða eftir að menn færu aðeins að takast á en þá gerðu þeir það líka svo um munar. Það má segja að Ingvar Þór Jónsson hafi kveikt í dínamítinu þegar hann gerðist fullágengur uppi við mark Belganna og fór aðeins í markvörðinn. Eftir það fylgdu einhverjar tíu brottvísanir á innan við fjögurra mínútna kafla og orðið hálfgert vandamál að koma öllum fyrir í refsiboxinu. Belgar skoruðu hins vegar eina mark leikhlutans og eru yfir, 3:2.

40. Ja hérna hér. Róbert Freyr Pálsson nær sér í brottvísun og nú eru þrír gegn þremur úti á svellinu. Það er erfitt að halda utan um allar þessar brottvísanir. Þvílík vitleysa.

38. Og enn bætist í boxið! Þetta er með hreinum ólíkindum. Birkir Árnason er sendur af velli og sömuleiðis einn Belginn. Fimm í boxinu hjá Íslandi en Íslendingar eru með fjóra útileikmenn á svellinu gegn þremur Belgum.

38. Enn er slegist. Jónas Breki og Ben Torremans lentu í rimmu úti við varamannabekk Íslands og eru báðir sendir í kælingu. Bekkurinn er að verða fullur í íslenska refsiboxinu. Þar sitja núna fjórir!

38. Það er kominn þessi svakalegi hiti í leikinn sem maður var bara að bíða eftir. Það ætlar enginn af strákunum að þurfa að horfa upp á einhver skítaglott af hálfu Belganna á hótelinu í kvöld.

37. Það er orðið ansi fjölmennt í refsiboxinu. Ísland er með þrjá í boxinu og Belgar tvo eftir að Andri Már Helgason og Mitch Morgan voru sendir í kælingu. Andri á að hafa verið með leikræna tilburði, kaupi það ekki alveg. Fjórir útileikmenn gegn fjórum á svellinu. 

37. Úff. Strákarnir svo nálægt því að jafna. Emil átti fast skot sem var varið og Dennis náði skoti í kjölfarið úr góðu færi en hitti ekki markið. Því næst náði Ingvar Þór Jónsson pekkinum og var næstum því búinn að ná að lauma honum í markið uppi við stöngina. Ingvar fór aðeins með kylfuna í markvörðinn og allt sauð upp úr. Ingvar fékk tvisvar sinnum tveggja mínútna brottvísun og markvörður Belga sömuleiðis. Úlfar Andrésson þarf að sitja með Ingvari fyrstu tvær mínúturnar.

34. Robin Hedström og Maxime Pellegrims eru báðir sendi í boxið fyrir einhver átök sín á milli. Fyrsta brottvísun Belganna í leiknum.

32. Vincent Morgan nærri því að bæta við sínu öðru marki. Hann slapp einn gegn Dennis en skaut framhjá úr dauðafæri.

31. MARK! (2:3) Gott spil hjá Belgunum sem losuðu um Don Geerts í frekar þröngu færi vinstra megin og hann skoraði með föstu skoti. Birkir er með laus úr boxinu.

30. Birkir Árnason sendur í refsiboxið. Belgarnir voru nýbúnir að taka markvörðinn sinn út af fyrir aukamann en skipta honum nú aftur út af.

30. Skyndisókn Belga og einn þeirra komst einn gegn markverði en Dennis varði.

30. Ingþór Árnason með fast skot að marki sem var varið en Pétur var nálægt því að ná frákastinu á undan markverðinum.

26. Fullt í báðum liðum. Belgarnir náðu ekkert að ógna íslenska markinu.

24. Orri Blöndal fór með hendurnar á undan sér og keyrði einn Belgann út í glerið. Fær að launum tvær mínútur í refsiboxinu.

22. Belgarnir spila rólega á milli sín á vallarhelmingi Íslands en komast ekki of nærri markinu. Nú losnar Andri úr prísundinni og þá er jafnt í liðum á nýjan leik.

21. Annar leikhluti hafinn og Ísland manni færra.

20. Leikhluta 1 lokið. (2:2) Staðan er jöfn eftir bráðfjörugan fyrsta leihluta. Ísland hefði hæglega getað skorað fleiri mörk en það sama á svo sem við um Belga. Strákarnir héldu sig vel við skipanir þjálfarans um að fá ekki bjánalegar brottvísanir, og fengu raunar enga brottvísun fyrr en nokkrum sekúndum fyrir hléið að Andri Már Helgason var sendur í skammarkrókinn fyrir óþarfa ryskingar. Ísland hefur því 2. leikhluta manni færra.

20. Frábært samspil hjá Emil, Jóni og Robin sem endaði með skoti Jóns af stuttu færi í netið utanvert. Mátti engu muna að Ísland færi með forystuna inn í hléið.

19. Pétur Maack með fast skot rétt innan bláu línunnar en það var varið.

18. Brotið á Emil en ekkert dæmt. Hann fer af velli og virðist eitthvað vera að kveinka sér. Nú reynir kannski á Guðrúnu Magnúsdóttur sjúkraþjálfara en þetta er vonandi ekkert alvarlegt.

15. MARK! (2:2) Þarna! Jón gerði hrikalega vel í að vinna pökkinn af værukærum Belgum rétt utan við markið þeirra, og koma honum á Robin Hedström sem átti ekki í vandræðum með að afgreiða skotið í markið. Þetta er svakalegur leikur.

10. Ísland heldur áfram að ógna. Pétur Maack fékk pökkinn í skyndisókn eftir sendingu Birkis Árnasonar og var einn gegn markverði en skotið var varið.

9. Robin komst í fínt skotfæri með aðstoð Jóns en varnarmaður náði að kasta sér fyrir skotið á síðustu stundu. Andri Már Helgason átti svo fast skot vinstra megin, af nokkru færi, en yfir markið.

7. MARK! (1:2) Belgarnir komast strax aftur yfir. Annar Morgan-bræðranna í liði þeirra, Vincent Morgan, fékk pökkinn út nærri íslenska markinu og skilaði honum í netið.

6. MARK! (1:1) Já! Strákarnir fljótir að svara fyrir sig. Jón Benedikt Gíslason jafnaði metin með skoti fyrir miðju marki eftir sendingu Emils.

5. Það er vissulega meiri harka í leiknum en í gær. Menn láta aðeins reyna á hlífðarglerið í kringum svellið.

3. MARK! (0:1) Æ, nei. Belgar skora nánast úr fyrstu marktilraun leiksins. Jens Engelen fékk pökkinn og lét vaða af löngu færi vinstra megin, og skoraði efst í hægra hornið. Martraðarbyrjun.

1. Leikur hafinn!

0. Tíu mínútur í leik, nýbúið að hreinsa svellið og nú getur leikurinn farið að hefjast. Tim þjálfari býst við harkalegum leik af hálfu Belganna og okkar menn hljóta að vera klárir í þann slag. Það eru allir ferskir fyrir þennan leik.

0. Það er ólíklegt að Jónas Breki sofni á verðinum í þessum leik frekar en fyrri daginn. Hann tók alla vega lífshættulegt magn af orkudrykkjum með sér í leikinn og það er besta mál ef hann verður í sama gír og í leiknum í gær.

0. Fjörutíu mínútur í leik og því er upphitun nú að hefjast. Belgar eru í gulum búningum en Ísland aftur í sínum bláu.

0. Ísland hefur aldrei unnið Belgíu, í fjórum leikjum, en komst næst því árið 2005, einmitt hér í Belgrad, þegar Belgar unnu 4:3-sigur. Þegar liðin mættust í Zagreb í fyrra vann Króatía 4:1. Emil Alengård skoraði mark Íslands þegar hann minnkaði muninn í 2:1 um miðjan 2. leikhluta.

0. Leikmannahópur Belga er að mestu skipaður leikmönnum sem spila í Belgíu, langflestir með Herentals. Þeirra hættulegasti leikmaður er hins vegar Dennis Swinnen sem spilar með liði Krefelder í Þýskalandi. Hann skoraði tvö mörk gegn Serbum í gær.

0. Það er bullandi Reservoir Dogs-fílingur í íslenska hópnum þegar hann heldur á keppnisstað. Menn dressa sig upp í sjóðheit jakkaföt, hárgreiðslan er útpæld og til að toppa lúkkið eru margir með sólgleraugu. Ef þeir líta svona vel út á svellinu í dag er ekkert að óttast.

0. Emil Alengård skoraði eina mark Íslands í 4:1-tapinu gegn Eistlandi í gær. Eistlendingar virðast vera með besta liðið á mótinu og voru að vinna Ástralíu 5:1, í leik þar sem markvörður Ástrala fór gjörrsamlega á kostum.

0. Góðan dag! Mbl.is heilsar ykkur aftur úr Pionir-höllinni. Strákarnir eru mættir og búnir undir slagsmál gegn Belgum í dag, liði sem hikar ekki við að nota líkamlegan styrk sinn til að láta finna fyrir sér.

Íslenski hópurinn:
Andri Freyr Sverrisson, Andri Már Helgason, Andri Már Mikaelsson, Birkir Árnason, Björn Már Jakobsson, Brynjar Bergmann, Dennis Hedström (M), Emil Alengard, Ingólfur Tryggvi Elíasson, Ingvar Þór Jónsson, Ingþór Árnason, Jóhann Már Leifsson, Jón Benedikt Gíslason, Jónas Breki Magnússon, Orri Blöndal, Ólafur Hrafn Björnsson, Pétur Maack, Robin Hedström, Róbert Freyr Pálsson, Sigurður Reynisson, Snorri Sigurbergsson, Úlfar Jón Andrésson.

Robin Hedström skoraði þrennu fyrir Ísland í dag og var …
Robin Hedström skoraði þrennu fyrir Ísland í dag og var maður leiksins. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert