Þótt Eistland standi sannarlega enn stalli ofar en Ísland í íshokkíheiminum er sá stallur alltaf að minnka.
Bilið á milli liðanna er í raun orðið það lítið að ekki þarf nema smáskammt af heppni til að brúa það, ef marka má viðureign þjóðanna í fyrstu umferð A-riðils 2. deildar HM hér í Belgrad.
Eistlendingar voru fyrirfram álitnir sterkasta þjóð mótsins og það er ekkert skrýtið. Þeir telja sig vera 1. deildar þjóð, enda langflestir atvinnumenn, og eftir að hafa fallið í fyrra ætla þeir sér einfaldlega beint upp aftur. Ísland hefur ekki verið nein fyrirstaða fyrir þá í gegnum tíðina en nú var raunin önnur, þótt Eistland hafi vissulega farið með sigur af hólmi að lokum, 4:1.
Eistland hefur unnið fyrri viðureignir þjóðanna með miklum yfirburðum, fyrst 16:1 og svo með fimm marka mun í síðustu tveimur leikjum, 6:1 og 7:2. Leikurinn í gær var hins vegar jafn og spennandi langt fram í lokaleikhlutann.
Eistlendingar sóttu stíft að íslenska markinu í fyrsta leikhlutanum og í raun leist manni ekkert á blikuna á þeim kafla. Dennis Hedström sýndi hins vegar enn á ný hversu góður markvörður hann er og sá við mörgum góðum skottilraunum. Eina mark Eistlands í fyrsta leikhluta kom úr skoti sem hann var grátlega nærri því að verja.
Ísland jafnaði metin með afar laglegu marki frá eina atvinnumanni sínum, Emil Alengård, sem afgreiddi pökkinn í hornið eftir góðan undirbúning Robins Hedström. Leikur íslenska liðsins lofaði mjög góðu á þessum kafla en Eistland nýtti sér brottvísun og komst fljótt yfir á nýjan leik og bætti við þriðja markinu úr skyndisókn. Í lokaþriðjungnum var jafnræði með liðunum en Eistlendingar bættu við fjórða markinu áður en yfir lauk.
Ísland mætir Belgíu klukkan 14.30 að íslenskum tíma í dag og verður fylgst með leiknum í beinni textalýsingu hér á mbl.is.