Ísland fékk silfur í fyrsta sinn

Emil Alengård á ferðinni gegn Serbum í gær. Ísland vann …
Emil Alengård á ferðinni gegn Serbum í gær. Ísland vann í vítakeppni eftir að Emil skoraði úr sjötta víti liðsins. Ljósmynd/IIHF

Íslenska karlalandsliðið í íshokkí náði sínum besta árangri frá upphafi þegar það tryggði sér í dag silfurverðlaun í A-riðli 2. deildar HM í Belgrad. Liðið vann fjórða leik sinn í röð, eftir tap gegn Eistlandi í fyrsta leik, þegar það vann Ísrael í vítakeppni í dag.

Ísland komst í 2:1 með mörkum Emils Alengård og Andra Más Helgasonar í fyrsta leikhluta en Ísrael, sem var að berjast fyrir lífi sínu í riðlinum, jafnaði metin undir lok leikhlutans og komst í 3:2 í 2. leikhluta.

Íslendingar reyndu hvað þeir gátu að jafna metin en mínútunum sem þeir höfðu til þess fækkaði óðum. Það var ekki fyrr en að Robin Hedström náði að skora með frábæru skoti þremur mínútum fyrir leikslok að Ísland jafnaði metin og tryggði sér stigið sem það þurfti til að landa silfurverðlaununum.

Íslensku strákarnir létu ekki þar við sitja heldur unnu vítakeppnina rétt eins og þeir gerðu gegn Serbum í gærkvöld. Emil Alengård skoraði eina markið í vítakeppninni. Þar með felldi hann Ísraelsmenn niður í B-riðil en þeir urðu að vinna vítakeppnina til að eiga möguleika á að halda sér uppi.

Eistland vann Belgíu fyrr í dag. Serbía og Ástralía mætast svo í lokaleik mótsins í kvöld kl. 18. Staðan í riðlinum fyrir þann leik er svona: Eistland 15, Ísland 9, Ástralía 5, Belgía 5, Serbía 4, Ísrael 4.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is. Viðtöl koma inn síðar í dag og fjallað verður um mótið í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Vítakeppni:

Víti 3, Ísrael: Oren Eizenman skýtur framhjá. Ísland vinnur fjórða leik sinn í mótinu og sýnir enn og aftur hve vel það er komið að silfrinu!

Víti 2, Ísland: Emil Alengård leikur á markvörðinn og skorar! Ísland yfir.

Víti 2, Ísreal: Daniel Erlich tekur vítið en skýtur framhjá.

Víti 1, Ísland: Ólafur tekur fyrsta víti Íslands eins og í gær en nú ver markvörðurinn.

Víti 1, Ísrael: Eliezer Sherbatov tekur fyrsta vítið en Dennis ver!

65. Ísraelsmenn eru brjálaðir yfir því að svellið hafi ekki verið hreinsað nægilega vel þeim megin sem þeir eiga að skora í vítakeppninni. Þeir fá að lokum sínum framgengt.

65. Framlengingu lokið. (3:3) Annan leikinn í röð bjóða strákarnir okkur upp á vítakeppni. Hún fór vel í gær.

63. Robin nálægt því að bæta við öðru marki en skotið var varið.

61. Framlenging hafin. Andri Már Helgason reynir skot af löngu færi en tekst ekki að bæta við sínu öðru marki.

60. Leikhluta 3 lokið. (3:3) Til hamingju Ísland! Silfurverðlaunin eru í höfn, hvað sem kann að gerast hér í framlengingunni. Þessi þriðji leikhluti tók á taugarnar en að lokum fann Robin Hedström glufu og jafnaði metin með sínu sjötta marki í mótinu. Besti árangur Íslands frá upphafi er staðreynd.

59. Ísraelsmenn taka leikhlé. Ein og hálf mínúta eftir.

58. Það eru fleiri en Íslendingar sem fögnuðu markinu. Hér eru stuðningsmenn liða sem eiga á hættu að falla ef Ísrael vinnur.

57. MARK! (3:3) JÁÁÁÁ! Þessir strákar eru ótrúlegir! Emil vann pökkinn í „face-off“ og Robin Hedström var skotfljótur að átta sig og þrumaði pekkinum efst í vinstra hornið!

56. Enn fækkar mínútunum sem eru til stefnu. Ísraelsmenn komust í hættulega skyndisókn en henni lauk með skoti í netið utanvert, rétt framhjá stönginni.

53. Aftur jafnt í liðum. Ísrael náði einu hættulegu skoti sem fór rétt yfir markið.

51. Róbert Freyr Pálsson sendur í skammarkrókinn.

50. Jæja, nú er mér hætt að lítast á blikuna. Tíu mínútur eftir og fátt sem bendir til þess að Íslandi sé að fara að jafna metin. En það tekur ekki langan tíma að skora eitt mark.

49. Ólafur að skapa hættu við mark Ísraels, fór aftur fyrir það og stakk sér svo fram og skaut en skotið var varið.

46. Emil með skot að marki og Robin reyndi að stýra pekkinum inn af stuttu færi en skotið fór framhjá. Fín tilraun.

41. Þriðji leikhluti hafinn og Úlfar kemur strax úr refsiboxinu.

40. Leikhluta 2 lokið. (2:3) Ísraelsmenn lágu í sókn í lok leikhlutans en náðu ekki að finna leiðina framhjá Dennis aftur. Þeir leiða hins vegar, 3:2, fyrir lokaþriðjunginn. Ísland þarf á marki að halda til að tryggja sér silfurverðlaunin.

39. Úlfar sendur í kælingu fyrir að fella andstæðing. Ísraelsmenn þá hugsanlega manni fleiri út leikhlutann.

34. Jónas Breki í fínu færi hægra megin en skotið fór í markvörðinn.

32. Ólafur og Úlfar með fínan samleik og Úlfar átti svo skot úr ágætu færi sem var varið.

29. Stíf sókn hjá Íslandi en það gengur erfiðlega að koma góðu skoti á markið.

28. Daniel Erlich er að reynast afskaplega erfiður viðureignar. Kom sér í gott færi núna en Dennis varði frá honum.

26. Emil og Jón með sitt skotið hvor en inn vildi pökkurinn ekki. Ísrael fékk í kjölfarið manninn sinn inná og því jafnt í liðum.

26. Ísraelsmenn í álitlegri skyndisókn en Orri lokaði vel á sóknarmanninn og komst fyrir skotið sem reið af í lokin.

24. Ísrael missir mann af velli í tvær mínútur.

24. Birkir Árnason brá sér framar á völlinn og átti hörkuskot en það var varið.

22. MARK! (2:3) Ísraelsmenn ná að nýta sér yfirtöluna og ná forystunni. Daniel Erlich skoraði aftur þegar hann stýrði skoti félaga síns af löngu færi í markið.

21. Annar leikhluti hafinn. Breki er áfram í refsboxinu næstu eina og hálfa mínútuna.

20. Leikhluta 1 lokið. (2:2) Staðan jöfn eftir fjörugan fyrsta leikhluta. Þessi staða myndi duga Íslandi til silfurverðlauna en það á margt eftir að gerast í þessum leik.

20. Jónas Breki fær fyrstu brottvísun leiksins. Hálf mínúta eftir af þessum fyrsta leikhluta.

19. Hætta á ferð. Dennis bjargaði í tvígang með góðum markvörslum.

19. Emil og Jón með laglegt spil og Jón átti svo skot rétt framhjá marki Ísraelsmanna.

17. MARK! (2:2) Úff. Það verður bara að segjast eins og er að þetta var virkilega vel gert hjá Daniel Erlich. Hann fór illa með Björn og Róbert og lék svo einnig á Dennis í markinu. Gleymum ekki að Ísrael fellur niður í B-riðil tapi liðið í dag, svo það er að berjast fyrir lífi sínu.

15. Atangur við mark Ísraels og Brynjar er nálægt því að koma pekkinum í netið áður en markvörðurinn nær að handsama hann.

12. Oren Eizenman fékk galopið færi til að skora aftur en skaut sem betur fer rétt yfir markið.

8. MARK! (2:1) Þarna! Frábær sókn hjá íslenska liðinu sem endaði með því að Jón fann Andra Má Helgason og hann skoraði glæsilegt mark.

6. MARK! (1:1) JÁ! Strákarnir ekki lengi að jafna metin. Ísrael missti pökkinn og Róbert Freyr Pálsson kom honum á Emil Alengård sem slapp einn gegn markverði, þó undir pressu frá varnarmanni, og þrumaði pekkinum í netið.

6. Jón Gíslason með fínt skot en rétt framhjá markinu.

5. MARK! (0:1) Ísraelsmenn hafa byrjað mun betur og eru komnir yfir. Oren Eizenman fékk sendingu út og skilaði pekkinum í netið með föstu skoti.

2. Hörkufæri hjá Ísraelsmönnum en Alon Eizenman skaut naumlega framhjá.

1. Leikur hafinn!

0. Þá er íslenska liðið búið að kyrja sig í gang inni í klefa og leikurinn fer að hefjast.

0. Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan Ísland spilaði sinn fyrsta leik á HM, gegn Ísrael í Suður-Afríku 1999. Ísraelsmenn unnu þar 11:0-sigur en í dag eru okkar menn sigurstranglegri. Eftir að hafa tapað fyrstu fjórum leikjum við Ísrael hefur Ísland nú unnið tvo í röð, 4:3 árið 2009 og 6:2 árið 2010. 

0. Þá koma menn sér inná svellið til að hita upp. Fjörutíu mínútur í leik.

0. Eini sigur Ísraels í mótinu kom gegn Áströlum í fyrsta leik, í framlengingu. Þeir fóru einnig í framlengingu gegn Belgum en töpuðu. Þeir fengu á sig 10 mörk gegn Serbum og 16 mörk gegn Eistum, og vonandi á Ísland jafnauðvelt með að finna leiðina að markinu í dag.

0. Emil hefur komið að flestum mörkum Íslands í mótinu eða 8, skorað 3 en lagt upp 5. Robin Hedström er næstmarkahæstur allra í mótinu með 5 mörk, tveimur mörkum á eftir Serbanum Marko Kovacevic.

0. Það er eflaust farið að taka sinn toll hjá leikmönnum að hafa verið á mikilli keyrslu síðustu 10 daga og spurning hvort leikurinn langi í gærkvöld sitji ekki í þeim. Hluti hópsins hefur líka verið að glíma við flensu en það þýðir ekkert að fást um það núna.

0. Tapi Ísland í dag er samt möguleiki á að liðið fái silfur. Ísland þyrfti þá að treysta á að Ástralía vinni ekki Serbíu, í venjulegum leiktíma, í lokaleiknum.

0. Góðan dag kæru lesendur mbl.is! Þá er komið að lokaleiknum. Eftir sigurinn dramatíska á Serbum í gær er ljóst að eitt stig í dag dugar til að ná í silfurverðlaun, en strákarnir eru staðráðnir í að vinna sinn fjórða leik í mótinu.

Íslenski hópurinn:
Andri Freyr Sverrisson, Andri Már Helgason, Andri Már Mikaelsson, Birkir Árnason, Björn Már Jakobsson, Brynjar Bergmann, Dennis Hedström (M), Emil Alengard, Ingólfur Tryggvi Elíasson, Ingvar Þór Jónsson, Ingþór Árnason, Jóhann Már Leifsson, Jón Benedikt Gíslason, Jónas Breki Magnússon, Orri Blöndal, Ólafur Hrafn Björnsson, Pétur Maack, Robin Hedström, Róbert Freyr Pálsson, Sigurður Reynisson, Snorri Sigurbergsson, Úlfar Jón Andrésson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka