Donald Sterling „biðst afsökunar“

Donald Sterling á leik milli LA Clippers og Golden State …
Donald Sterling á leik milli LA Clippers og Golden State Warriors. AFP

„Ég veit ekki hvers vegna þessi stelpa fékk mig til að segja þessa hluti,“ sagði Donald Sterling í viðtali við CNN í gær, en hann sagðist vera þangað kominn til þess að biðjast afsökunar á rasískum ummælum.

Sterling var um mánaðamótin dæmdur í ævilangt bann frá öllu tengdu NBA-deildinni í körfubolta í Bandaríkjunum vegna kynþáttaníðs. Hann var jafnframt sektaður um 2,5 milljónir dala og í kjölfarið þvingaður til að selja körfuboltalið sitt, Los Angeles Clippers.

Viðtalið við CNN í gær er það fyrsta þar sem hann tjáir sig opinberlega um málið síðan. „Ég er ekki rasisti. Ég gerði hræðileg mistök. Ég er hingað kominn til að biðjast afsökunar,“ sagði Sterling í viðtali við CNN í gær. Það var í fyrsta sinn sem hann tjáði sig opinberlega um málið.

Ummælin alræmdu sem urðu honum að falli voru hljóðrituð og birt á slúðursíðunni TMZ. „Það fer mikið í taug­arn­ar á mér að þú skul­ir sýna það ít­rekað í sjón­varp­inu að þú eig­ir í slag­togi við svart fólk. Get­ur þú ekki kom­ist hjá því?“ sagði hann við kærustu sína, V Stiviano, eftir að hún birti myndir af sér á netinu með vinum sínum.

Í viðtalinu við CNN hélt Sterling því fram að hann hefði verið blekktur til að láta þessi ummæli falla gegn betri vitund. „Þegar ég hlusta á þessa upptöku þá skil ég ekki einu sinni hvernig ég gat sagt neitt þessu líkt. Ég veit ekki hvers vegna þessi stelpa fékk mig til að segja þetta.“

Sterling, sem er 81 árs, sagðist vera góður eigandi körfuboltaliðsins og að hann teldi margra ára góða hegðun eiga að vega á móti einum mistökum. 

Þess má geta að fyrir helgi var annarri upptöku lekið með nýjum ummælum Sterlings, þar sem hann sagði í símtali við vin sinn að hann hefði látið ummælin falla til þess að fá Stiviano til að sofa hjá sér. 

Sjá nánar á vef CNN

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert