Gunnlaugur Júlíusson hafnaði í 26. sæti af 110 hlaupurum í Grand Union Canal hlaupinu í Englandi um helgina, þar sem keppendur hlaupa heilar 145 enskar mílur eða 232 kílómetra.
Aðstæður voru afar erfiðar í hlaupinu en skömmu eftir að keppendur voru ræstir af stað fór að hellirigna. Næsta sólarhringinn rigndi nánast án afláts og voru stígarnir sem hlaupið var eftir í fyrri hluta hlaupsins fljótt orðnir að hálfgerðu drullusvaði.
Gunnlaugur lauk hlaupinu á 35 klukkustundum og 43 mínútum sem er um klukkutíma lakari árangur hjá honum en fyrir tveimur árum. Þá voru aðstæður hins vegar mun betri. Sigurvegarinn í ár lauk hlaupinu á tæpum 27 klukkustundum. Um 50 keppendur náðu ekki að ljúka hlaupinu sem er til marks um erfiðar aðstæður.
Hlaupið var frá miðborg Birmingham á laugardaginn og lauk hlaupinu við Litlu Feneyjar, steinsnar frá Paddington lestarstöðinni í London.