Íslensku landsliðin í strandblaki enduðu í fjórða og neðsta sæti í sínum riðli í Evrópu í undankeppni Ólympíuleikanna í Rio de Janeiro 2016. Þrátt fyrir það er enn möguleiki á að komast til Ríó, því að Ísland getur keppt í annarri keppni í haust með öðrum þjóðum sem enduðu í þriðja og fjórða sæti í sínum riðlum um helgina.
Keppnin um helgina fór fram í Portúgal og í undanúrslitunum á laugardag tapaði Ísland 2:0 fyrir Portúgal, bæði hjá körlunum og konunum. Hvert land teflir fram tveimur tveggja manna karlaliðum og tveimur kvennaliðum. Bæði liðin leika sinn leikinn hvort og þarf að vinna báða leikina til að þjóðin vinni viðureignina. Ef þjóðirnar vinna sinn hvorn leikinn þarf að velja annað liðið sitt til að spila oddaleik um sigur.
Ísland mætti svo Ungverjalandi í gær í keppni um þriðja sætið. Raunar er fyrirkomulagið þannig að liðið sem vinnur þá viðureign keppir svo við tapliðið í úrslitum riðilsins um 2. sætið. Ísland tapaði þó fyrir Ungverjum, 2:0, bæði í karla- og kvennaflokki, en bæði karlaliðin unnu þó eina hrinu og þær Elísabet Einarsdóttir og Berglind Gígja Jónsdóttir unnu líka eina hrinu í sinni viðureign gegn Ungverjum.
Nánar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.