Í fyrsta sinn var logn

Íslandsmótið í bogfimi fór fram með pompi og prakt um helgina í Leirdalnum í Grafarholti. Um er að ræða þriðja Íslandsmótið í greininni en í ár var það í fyrsta skipti haldið í Reykjavík. Fyrstu tvö skiptin fór mótið fram á Laugum í Reykjadal

Keppni var skipt í þrjá bogaflokka, trissuboga, sveigboga og langboga en undankeppni með 72 skotum keppenda ákvarðar hvar keppendur lenda í útsláttarkeppni. Þar er keppt maður á móti manni. Eitt nýtt félag tók þátt í ár en það er Bogfimifélagið Álfar frá Akureyri.

Mótið fór fram við aðstæður eins og þær gerast bestar á Íslandi utanhúss en í öllum bogaflokkum voru Íslandsmet slegin. Sigurvegari úr trissubogaflokki karla var Guðmundur Örn Guðjónsson, Bogfimifélaginu Álfum. Í sveigbogaflokki karla sigraði Sigurjón Atli Sigurðsson, Íþróttafélagi fatlaðra. Í langbogaflokki karla sigraði Guðjón Einarsson úr Bogfimifélaginu Boganum úr Kópavogi,

Í trissubogaflokki kvenna sigraði Helga Kolbrún Magnúsdóttir, Bogfimifélaginu Boganum. Í sveigbogaflokki stóð Astrid Daxböck úr sama félagi uppi sem sigurvegari. Að lokum sigraði í langbogaflokki kvenna Margrét Einarsdóttir, einnig úr Boganum.

Morgunblaðið náði tali af Íslandsmeistaranum í trissubogaflokki, Guðmund Örn Guðjónsson. Guðmundur segir trissubogann vera nútímalegan boga á hjólum sem verið er að vinna í að fá inn á Ólympíuleika en keppt er í sveigbogaflokki á leikunum.

„Ég var mjög ánægður. Maður vill alltaf meira og hitta alltaf fullkomlega,“ sagði Guðmundur um spilamennskuna en aðstæður á mótinu voru góðar. „Þær voru mjög góðar. Þetta er í fyrsta sinn sem við fáum að keppa á þessu svæði og í fyrsta skipti var logn. Það sást á spilamennskunni,“ sagði Guðmundur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert