Kirsan Ilyumzhinov var í dag endurkjörinn forseti Alþjóðaskáksambandsins, FIDE. Kirsan hlaut 110 atkvæði en Garry Kasparov 61. Skáksamband Íslands, ásamt skáksamböndum Norðurlandanna, hafði lýst yfir stuðningi við Kasparov í forsetakjörinu. Kosið er til fjögurra ára.
Að sögn Gunnars Björnssonar, forseta Skáksambands Íslands, flutti Kasparov fyrri framboðsræðuna í dag. Þar sagði Kasparov að hann ætlaði að koma með 10 milljónir bandaríkjadollara, 1,2 milljarða króna, frá styrktaraðilum í Bandaríkjunum. Þegar Kirsan tók til máls í sinni framboðsræðu lofaði hann tvöfaldri þeirri upphæð, og að summan kæmi ekki á morgun, heldur strax í dag.
Forsetakjör FIDE hefur verið mikið á milli tannanna á skákmönnum, ekki síst Vestanhafs, þar sem Rússar notuðu sendiráð sín um allan heim til að hafa áhrif á úrslit kosninganna. Meðal annars var haft samband við forseta Skáksambands Íslands og hann spurður hvað hann ætlaði að kjósa.
Skipt var um forseta skáksambands Afganistan á vefsíðu FIDE þrátt fyrir að engin slík ákvörðun hafi legið fyrir hjá viðkomandi skáksambandi. Þá var heilu skáksambandi skipt út fyrir annað í Afríkuríkinu Gabon en skáksambandið sem fyrir var hafði lýst yfir stuðningi við Kasparov.
Kirsan hefur verið mjög umdeildur og segja andstæðingar hans að neikvætt sé að hafa mann í forsvari fyrir skákíþróttina sem hafi átt í vinasamböndum við umdeilda þjóðhöfðingja, svo sem Putin og Gaddafi. Gagnrýnin hefur m.a. snúið að því að erfitt sé að fá styrki til FIDE en það virðist vera að ekki sé fótur fyrir þeirri gagnrýni þar sem hann ætlar sér að koma með 20 milljónir bandaríkjadollara, tæpa 2,5 milljarða íslenskra króna. Kirsan benti einmitt á það í framboðsræðu sinni í dag að það sé ekki eingöngu í Bandaríkjunum þar sem menn eigi peninga heldur líka í Rússlandi, og vísaði þar til peninganna sem hann ætlar sér að koma með inn í FIDE í dag.
Þing Alþjóðaskáksambandsins fór fram í dag í Tromsö í Noregi þar sem Ólympíuskákmótið fer nú fram. Nú er í gangi 9. umferð mótsins og var íslenska sveitin sem teflir í opnum flokki í 19. sæti fyrir umferðina og íslenska kvennasveitin í 73. sæti en samtals verða tefldar 11 umferðir.