Aníta Hinriksdóttir komst ekki í úrslit í 800 metra hlaupi kvenna á Evrópumótinu í frjálsíþróttum í Zürich. Aníta endaði í 6. sæti í fyrri riðlinum í undanúrslitum á tímanum 2:02,45 mín.
Þrjár fyrstu í hvorum riðli í undanúrslitum komast í úrslitin og svo tvær til viðbótar með bestu tímana að auki eða alls átta keppendur sem komast í úrslit. Það er því ljóst að Aníta kemst ekki í úrslit.
Tími Anítu í undanúrslitum skilar henni í 11. sæti á hennar fyrsta stórmóti fullorðinna utanhúss sem verður að teljast fín frumraun.
Aníta hljóp nokkuð taktískt. Hún var meðal fremstu kvenna í hlaupinu, en keyrði þó ekki í gegn langfyrst fyrstu 200–600 metrana eins og oft áður, heldur hélt sig innan hópsins. Hún stífnaði hins vegar aðeins upp á lokametrunum en endaði í 6. sæti í riðlinum eftir prýðilegt hlaup.
Maryna Arzamasova frá Hvíta-Rússlandi hljóp á bestum tíma í undanúrslitum eða á 2:00,36 mín.