„Aníta stóð algjörlega undir væntingum“

Aníta Hinriksdóttir á EM í Zürich.
Aníta Hinriksdóttir á EM í Zürich. AFP

„Raunverulega metum við þetta þannig að Aníta hafi staðið algjörlega undir þeim væntingum sem gerðar voru til hennar á þessu móti,“ sagði Gunnar Páll Jóakimsson þjálfari Anítu Hinriksdóttur við mbl.is í kvöld eftir að Aníta hljóp í undanúrslitum í 800 metra hlaupi á Evrópumótinu í frjálsíþróttum í Zürich í Sviss.

Aníta hljóp á 2:02,45 mín. og endaði í 6. sæti í sínum undanúrslitariðli. Það nægði ekki í úrslit á hennar fyrsta stórmóti í fullorðinsflokki utanhúss. Aníta endaði svo í 11. sæti.

„Ég sagði nú við einhvern að það væru svona 30% líkur á því að hún kæmist í úrslit. Hún var með tíunda besta tímann inn á mótið, en átta sem komast í úrslit. Svo vissum við líka af keppendum þarna í undanúrslitunum sem voru ekkert að hlaupa alveg við sitt besta í undanrásunum og þurftu ekkert að hafa mikið fyrir hlutunum þar. Þannig maður vissi að þær áttu inni. En Aníta fór alveg inn í hlaupið upp á það að reyna að komast í úrslit og hún var líka alveg í baráttunni um það. Þetta er bara svona taktík þar sem menn verða bara að læra af reynslunni,“ sagði Gunnar Páll.

„En það skemmtilegasta við þessi 800 metra hlaup er þessi taktík og annað við hana. Þær eru bara ennþá aðeins sterkari, þessar eldri en Aníta í því,“ sagði Gunnar sem er sáttur við frammistöðu Anítu á EM.

Finnst 11. sæti bara mjög gott

„Mér finnst 11. sæti bara mjög gott. Fyrri hluta sumars var hún í hlaupum þar sem hún var í stigakeppni fyrir félagslið og landslið og var ekki í mjög hröðum hlaupum. Þannig hún er kannski aðeins ósátt við að hafa ekki fengið hraðari hlaup í sumar. En aftur á móti þá voru aðeins tvær sem náðu sínum besta árangri í ár í undanúrslitunum. Þannig það er mikil barátta, spenna og pressa í þessu. Og maður sér margar hérna sem eiga í erfiðleikum hérna. Þannig ég myndi segja að hún standi algjörlega undir væntingum í þessum hlaupum hérna,“ sagði Gunnar Páll.

Gunnar Páll Jóakimsson, þjálfari Anítu Hinriksdóttur.
Gunnar Páll Jóakimsson, þjálfari Anítu Hinriksdóttur. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert