Íslandsmeistarar Skautafélags Akureyrar unnu í kvöld all ævintýralegan sigur á Esju, 3:1, þegar liðin mættust á Íslandsmóti karla í íshokkí í Skautahöllinni í Laugardal. Þeir skoruðu þrívegis á lokamínútum leiksins og tryggðu sér þannig sigurinn.
Það voru Esjumenn sem tóku forystuna um miðja aðra lotu með marki frá Agli Þormóðssyni. Esjumenn fengu síðan kjörið tækifæri til að gera útum leikinn um miðja þriðju lotuna þegar Víkingar þurftu að leika manni færri á ísnum eftir að varnarmaður þeirra, Ingþór Árnason hafði fengið stóran dóm.
Þrátt fyrir töluvert að tækifærum náðu Esjumenn hinsvegar ekki að nýta sér það. Þess í stað jöfnuðu Víkingar leikinn þegar tæpar tvær mínútur voru eftir að leiknum. Segja má að smá heppnisstimpill hafi verið yfir markinu. Jóhann Már Leifsson átti skot sem lenti í skautablaði leikmanns Esju og það í skautablað Gunnar Darra Sigurðssonar og í markið, 1:1.
Víkingar létu kné fylgja kviði og áður en mínúta var liðin hafði Ingvar Þór Jónsson komið þeim yfir og einungis ein mínúta til leiksloka. Gauti Þormóðsson brá á það ráð að taka markmann sinn af velli og fjölga í sókninni í von um að jafna leikinn en það gekk ekki upp. Víkingar náðu pekkinum og Andri Már Mikaelsson innsiglaði sigur þeirr með því að skora í autt markið.
Mörk/stoðsendingar UMFK Esju:
Egill Þormóðsson 1/0
Róbert Freyr Pálsson 0/1
Ólafur Hrafn Björnsson 0/1
Refsingar UMFK Esju: 6 mínútur
Mörk/stoðsendingar SA Víkinga:
Ingvar Þór Jónsson 1/0
Andri Már Mikaelsson 1/0
Gunnar Darri Sigurðsson 1/0
Hilmar Freyr Leifsson 0/1
Jóhann Már Leifsson 0/1
Ben DiMarco 0/1
Sigurður Reynisson 0/1
Refsingar SA Víkinga: 29 mínútur.
SA er þá komið með níu stiga forystu þegar 10 umferðum er lokið og er með 23 stig, Björninn er með 14 stig, SR 12 og Esja er nú í neðsta sætinu með 11 stig.