Eygló Ósk á ellefta besta tíma ársins

Eygló Ósk Gústafsdóttir
Eygló Ósk Gústafsdóttir Ómar Óskarsson

Átta íslenskir sundmenn taka þátt í heimsmeistaramótinu í sundi í 25 m laug sem hefst í Doha í Katar á fimmtudaginn. Mótinu lýkur síðdegis á sunnudag. Íslensku sundmennirnir átta verða í hópi um 900 sundmanna sem koma víðsvegar að úr heiminum til mótsins en þeir munu reyna fyrir sér í 46 keppnisgreinum, þar af 34 einstaklingsgreinum og síðan verður keppni í 12 boðsundum. Alls verða 138 verðlaunapeningar hengdir um háls keppenda sem vinna til verðlauna í greinunum 46.

Íslensku keppendurnir eru Daníel Hannes Pálsson, Davíð Hildiberg Aðalsteinsson, Eygló Ósk Gústafsdóttir, Hrafnhildur Lúthersdóttir, Inga Elín Cryer, Kolbeinn Hrafnkelsson, Kristinn Þórarinsson og Kristófer Sigurðsson.

Einnig fengu tveir sundmenn styrk frá Alþjóðasundsambandinu, FINA, til að fara og taka þátt í ungliðaverkefni á vegum þess í Doha meðan á HM stendur. Það eru þau Ólafur Sigurðsson og Sunneva Dögg Friðriksdóttir. Ólafur og Sunneva Dögg eru í hópi 350 unglinga á aldrinum 14 til 16 ára sem boðið er til Doha til þess að taka þátt í æfingabúðum sem haldnar verða samhliða heimsmeistaramótinu.

Af keppendunum átta virðist sem Eygló Ósk eigi mesta möguleika á að ná lengst íslensku keppendanna. Sem stendur á hún 11. besta árangurinn í heiminum á þessu ári í 200 m baksundi, 2.04,78 mínútur. Það er Íslandsmetið í greininni og setti Eygló Ósk það um miðjan síðasta mánuð á Íslandsmeistaramótinu sem haldið var í Ásvallalaug.

Nánar er fjallað um heimsmeistaramótið í sundi í 25 m laug í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert