Á vetrarólympíuleikunum í Sarajevo í Júgóslavíu fyrir þrjátíu árum vakti ungur Finni talsverða athygli. Matti Nykänen vann þá til gull- og silfurverðlauna í skíðastökki aðeins 21 árs gamall. Sigur hans af hæsta pallinum var mesti yfirburðasigur í skíðastökki í sögu leikanna fram að því. Nykänen fylgdi þessari velgengni sinni kröftuglega eftir og var væntanlega á hátindi síns ferils á leikunum í Calgary í Kanada árið 1988. Eftir að ferlinum lauk tók ýmislegt við hjá kappanum, misjafnlega uppbyggilegt.
Matti Nykänen er frá Jyväskylä, 135 þúsund manna borg liðlega 270 km norður af Helsinki. Eins og flestir íþróttamenn sem komast í heimsklassa byrjaði Nykänen snemma að æfa íþrótt sína og fljótlega komst fátt annað að. Nykänen stökk í fyrsta skipti átta ára gamall eftir áskorun frá föður sínum. Skíðasvæðið í borginni var bæði búið stólalyftu og flóðljósum sem gerði það að verkum að Nykänen náði fleiri stökkum á hverjum degi en margir keppinauta hans. Hann nýtti sér það og æfði gríðarlega mikið eða frá ellefu á morgnana til átta á kvöldin alla daga vikunnar. Ofan á þrotlausar æfingar bættist góð tækni sem gerði honum kleift að stökkva lengra en aðrir í heiminum.
Finninn kynntist fljótt verulegri velgengni og varð heimsmeistari ungmenna árið 1981, þá 18 ára. Sama ár vann hann einnig heimsbikarmót í fyrsta skipti. Aðeins ári síðar stóð hann uppi sem sigurvegari á heimsmeistaramótinu í Osló og var þar með kominn í fremstu röð í heiminum en hann fékk einnig bronsverðlaun á sama móti.
Á vetrarólympíuleikunum í Sarajevo fékk Matti Nykänen bæði gull- og bronsverðlaun. Sigur hans á efsta palli kom ekki beinlínis á óvart þar sem hann var ríkjandi heimsmeistari en yfirburðirnir vöktu athygli. Keppinautarnir fóru að kortleggja stíl Finnans í þeirri von að bæta sig en Matti Nykänen hélt sínu striki. Árið eftir leikana í Saravejo bætti hann til að mynda eigið heimsmet og „flaug“ þá 191 metra í Oberstdorf í Þýskalandi. Varð Finninn þar með fyrsti skíðastökkvarinn sem stökk lengra en 190 metra.
Ítarlega er fjallað um litríkan feril Nykänen í sögustund Kristjáns Jónssonar í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.