Körfuknattleiksmaðurinn Jón Arnór Stefánsson, leikmaður spænska liðsins Unicaja Málaga, var í kvöld útnefndur íþróttamaður ársins af Samtökum íþróttafréttamanna en kjörinu var lýst í Gullhömrum nú rétt í þessu
Jón Arnór hlaut 435 atkvæði af 480 mögulegum. Í öðru sæti varð knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Swansea, með 327atkvæði og í þriðja sæti hafnaði handknattleiksmaðurinn Guðjón Valur Sigurðsson, leikmaður Barcelona, með 303 atkvæði en þetta er í 59. sinn sem Samtök íþróttafréttamanna standa fyrir vali á íþróttamanni ársins.
Jón Arnór er annar körfuknattleiksmaðurinn í sögu kjörsins sem hlýtur þessa viðurkenningu en Kolbeinn Pálsson varð sá fyrsti en hann var kjörinn íþróttamaður ársins árið 1966.