Íslenskir keppendur unnu til hvorki meira né minna en 22 verðlauna á Norðurlandamótinu í taekwondo sem fram fór í Noregi um síðustu helgi. Þar af voru sex gullverðlaun, tíu silfurverðlaun og sex bronsverðlaun.
Ástrós Brynjarsdóttir frá Keflavík og þau Ingibjörg Erla Grétarsdóttir og Daníel Jens Pétursson frá Selfossi vörðu Norðurlandameistaratitla sína í greininni frá því í fyrra. Ingibjörg Erla varð Norðurlandameistari í fimmta sinn, Ástrós vann sinn þriðja Norðurlandameistaratitil í röð, þrátt fyrir ungan aldur, og vann það einstaka afrek að hreppa gullverðlaun bæði í bardaga og formum og er afar sjaldgæft að keppendur sem komnir eru svo langt í íþróttinni skuli skara fram úr í báðum hlutum hennar. Ennfremur varð Ástrós fyrst íslenskra kvenna til að verða Norðurlandameistari í formum.
Annar Keflvíkingur, Ágúst Kristinn Eðvarðsson, vann sinn þriðja Norðurlandameistaratitil í bardaga, rúmum tveimur vikum eftir að hafa verið valinn besti taekwondokeppandinn á Reykjavíkurleikunum.
Daníel Jens Pétursson varð Norðurlandameistari með fáheyrðum yfirburðum. Hann vann bardaga sína með miklum mun, og var undanúrslitabardaginn hjá Daníel stöðvaður í þriðju lotu vegna yfirburða hans.
Gunnar Snorri Svanþórsson frá Selfossi vann einnig sinn flokk með miklum yfirburðum, og var undanúrslitabardagi hans stöðvaður í þriðju lotu, líkt og bardagi Daníels, liðsfélaga hans hjá Selfossi, vegna yfirburða.
Silfurverðlaunahafar Íslands á mótinu voru Aldís Inga Richardsdóttir, Daniel Aagard Egilson, Dagný María Pétursdóttir, María Guðrún Sveinbjörnsdóttir, Karel Bergmann Gunnarsson, Vigdís Helga Eyjólfsdóttir, Eyþór Atli Reynisson, Gulleik Lövskar, Írunn Ketilsdóttir, og þau Ástrós Brynjarsdóttir og Svanur Þór Mikaelsson í parakeppni.
Bronsverðlaunahafar Íslands voru Kristmundur Gíslason, Kristín Björg Hrólfsdóttir og Ægir Már Baldursson í einsaklingskeppni, Vigdís Helga Eyjólfsdóttir og Eyþór Atli Reynisson í parakeppni og í hópakeppni annarsvegar Adda Paula Ómarsdóttir, Aldís Inga Richardsdóttir og Kristín María Vilhjálmsdóttir, og hinsvgar Karel Bergmann Gunnarsson, Svanur Þór Mikaelsson og Ægir Már Baldursson.