Elías samdi við Vålerenga til þriggja ára

Elías Már Ómarsson skrifar undir samninginn við Vålerenga.
Elías Már Ómarsson skrifar undir samninginn við Vålerenga. Ljósmynd/vif-fotball.no

Keflvíkingurinn Elías Már Ómarsson skrifaði í dag formlega undir samning til þriggja ára við norska úrvalsdeildarfélagið Vålerenga og mun leika með liðinu í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þegar ný leiktíð hefst í apríl.

Elías var til reynslu hjá Vålerenga í október en æfði í dag með liðinu í fyrsta sinn eftir að norska félagið komst að samkomulagi við Keflavík um kaupverð fyrir þennan tvítuga sóknarmann.

„Þetta var frábært. Ég var mjög ánægður með það hvað hraðinn er mikill. Strákarnir eru frábærir og þjálfarinn líka,“ sagði Elías eftir æfinguna. Þjálfarinn Kjetil Rekdal er ánægður með að hafa klófest Elías:

„Hann er sóknarsinnaður, snöggur leikmaður. Hann er ekki stór en er með gott auga fyrir spili og góður í að klára færin. Hann þarf að sjálfsögðu að æfa vel, eftir að hafa spilað á lægra stigi, en hæfileikarnir, sköpunargáfurnar og hæfnin til að klára færin eru til staðar,“ sagði Rekdal.

Gary Martin, framherji KR, var einnig á æfingunni en hann er til reynslu hjá Vålerenga þessa dagana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka