„Mikilvægt að vinna þennan“

Ben DiMarco úr SA í leiknum í kvöld en hann …
Ben DiMarco úr SA í leiknum í kvöld en hann hefur raðað inn mörkunum í vetur. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Richard Eiríkur Tahtinen, þjálfari SA, sagði hans menn hafa verið hreyfanlegri í sókninni í kvöld heldur en þeir voru þegar SA tapaði fyrir SR á dögunum í síðasta leiknum í deildinni. SA vann SR 4:0 í fyrsta leik liðanna um Íslandsmeistaratitil karla í íshokkí. 

„Þetta var gríðarlega mikilvægt. Þeir höfðu unnið okkur þrisvar í röð og því var mikilvægt fyrir okkur að vinna þennan. Auk þess skoruðum við ekki mark á móti þeim í síðasta leiknum í deildinni en í kvöld skoruðum við fjögur sem er jákvætt varðandi sóknarleikinn. Það er mjög mikilvægt að byrja úrslitarimmuna svona,“ sagði Richard þegar mbl.is tók hann tali í Skautahöllinni í Laugardal í kvöld. 

„Munurinn á þessum tveimur síðustu leikjum á móti SR er sá að við hugsuðum meira um hvað við gerum við pökkinn inni í sóknarsvæðinu. Við nýttum okkur auð svæði betur heldur en að reyna alltaf að sækja beint á markið. SR-liðið er mjög þétt fyrir framan eigið mark og nú var hreyfanleikinn miklu meiri í sókninni hjá okkur. Í vörninni vorum við einnig betri heldur en undanfarið því við höfum átt það til að gleyma okkur í vörninni.“

Liðin mætast aftur annað kvöld og úrslitakeppnin byrjar því á tveimur leikjum á jafnmörgum dögum. Richard segir að leikurinn annað kvöld gæti þess vegna orðið hraðari og leikur kvöldsins ætti ekki að þurfa að sitja of mikið í mönnum. „Ég held að leikurinn á morgun verði ekki hægur. Núna spilum við nánast á fjórum línum og ég get notað hvern sem er af mínum mönnum á ísnum. Það hjálpar. SR-ingarnir eru ungir og í góðu formi. Ég held því að annar leikurinn verði ekki hægari heldur hraðari ef eitthvað er,“ sagði Richard Eiríkur ennfremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert