Hnefaleikakappinn Floyd Mayweather leggur allt í sölurnar til að geta unnið Manny Pacquiao þegar kapparnir mætast í hringnum í Las Vegas þann 2. maí, í uppgjöri sem margir telja „bardaga aldarinnar“.
Mayweather hefur meðal annars ráðið til sín einkakokk sem færir honum máltíðir sem hver um sig kosta kappann 1.000 Bandaríkjadali, jafnvirði 140.000 króna, samkvæmt TMZ. Miðað við fjórar máltíðir á dag, nú þegar 46 dagar eru í bardagann, þýðir þetta að Mayweather eyði 25,6 milljónum króna í mat á þeim tíma.
„Dagskráin hjá mér er þannig að það er engin dagskrá. Ég er bara til taks fyrir hann allan sólarhringinn, alla vikuna. Ef hann þarf á mér að halda klukkan þrjú um nótt þá elda ég morgunmat,“ sagði einkakokkur kappans við TMZ. Mayweather er einkar hrifinn af skyndibita en slíkt fæði dugar skammt þegar bardagi aldarinnar er framundan.
„Hann hugsar alltaf um það hvað hann setur ofan í sig, en það er eitthvað alveg sérstakt við þennan bardaga,“ sagði kokkurinn.
„Uppáhaldið hans er spagettí og taco-skeljar,“ sagði kokkurinn, en Mayweather fær mikið af próteinum úr kjúklingi, kalkúni, nautakjöti og fiski, auk þess sem safar úr lífrænum ávöxtum eru vinsælir. Það verður engu að síður að teljast ótrúlegt að hver máltíð kosti 1.000 dali og kokkurinn segist yfirleitt ekki rukka svo mikið. Mayweather hafi hins vegar talið það við hæfi.
Þess má geta að samkvæmt Forbes fær Mayweather, sem er hæstlaunaði íþróttamaður heims, á bilinu 17-20 milljarða króna fyrir þennan eina bardaga.