Ég var bara réttur maður á réttum stað

Ben DiMarco skoraði öll mörk SA í kvöld.
Ben DiMarco skoraði öll mörk SA í kvöld. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ben DiMarco var hetja Akureyringa í kvöld þegar SA lagði SR í úrslitaeinvígi liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí. Hann skoraði öll þrjú mörkin í 3:1 sigri og var því einn um að koma pökknum fram hjá Ævari Björnssyni, markverði SR.

Ben kemur frá 50.000 manna bæ í Texas sem heitir Galveston. Stendur bærinn við Mexíkóflóann og er helst þekktur fyrir það að hafa lagst í rúst í mannskæðum fellibyl árið 1900. Drengurinn er stoltur af uppruna sínum og skartar Texas-húðflúri á síðunni. Eins og Bandaríkjamanna er siður var Ben ekkert nema hógværðin að leik loknum.

,,Þetta er sigur liðsins. Strákarnir eru allir að vinna vel og opna svæði sem ég get nýtt mér. Það má segja að ég hafi bara verið réttur maður á réttum stað, allavega í mörkum eitt og þrjú. Þegar ég skoraði annað markið þá var ég að leita að réttu sendingunni en fann hana ekki svo ég hékk dálítið lengi á pökknum. Ég náði loks skoti og hirti sjálfur frákastið. Nú er bara að halda áfram og einbeita sér að næsta leik,“ sagði Ben við mbl.is eftir leikinn.

Hvernig leggst það í Ben að spila strax á morgun með marga gamlingja í liðinu sem eflaust þola ekki að spila dag eftir dag?

,,Jú, við erum með eldri leikmenn en þeir eru líka mun leikreyndari og klókari. Ég held að það muni ekki há okkur, frekar hjálpa okkur að hafa aldurinn og reynsluna. Við vitum okkar takmörk og nýtum reynsluna til að gera okkar leik sem bestan. Ég er því hvergi smeykur,“ sagði hinn einstaklega sjarmerandi Texasbúi að lokum.

Hann gat svo ekki annað en hlegið dátt þegar hann fékk að vita að hann væri nú kallaður Galveston-undrið meðal þeirra blaðamanna sem fylgdust með leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert