Lögðu Nígeríu í fyrsta leik

Rakel Jóhannesdóttir vann tvo leiki í morgun.
Rakel Jóhannesdóttir vann tvo leiki í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Ísland sigraði Nígeríu, 3:2, í fyrsta leik sínum á heimsmeistaramóti landsliða í badminton, Sudirman Cup, í Kína í morgun.

Rakel Jóhannesdóttir og Daníel Thomsen spiluðu tvenndarleik gegn Viktor Makanju og Dorcas Ajoke Adesokan og unnu 21-11 og 22-20.

Kári Gunnarsson spilaði einliðaleik gegn Enejoh Abah og tapaði eftir oddalotu 16-21, 21-10 og 15-21.

Margrét Jóhannsdóttir spilaði einliðaleik gegn Grace Gabriel, sem hefur keppt hérlendis á Iceland International. Margrét tapaði 19-21 og 17-21.

Atli Jóhannesson og Kári Gunnarsson mættu Enejoh Abah og Victor Makanju í tvíliðaleik og höfðu betur 25-23 og 21-7.

Tvíliðaleik kvenna léku Rakel Jóhannesdóttir og Margrét Jóhannsdóttir en þær unnu Dorcas Ajoke Adesokan og Grace Gabriel 21-13 og 21-16.

Með því lauk fyrsta leik Íslands á Sudirman Cup með sigri Íslands. Á morgun mætir liðið Filippseyjum en þessi þrjú lið eru í A-riðli fjórða stigs keppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert