Ísland náði góðum árangri á Opna danska mótinu í taekwondo sem haldið var í Kolding í Danmörku á dögunum.
Taekwondo-íþróttin skiptist í tvo keppnishluta; bardaga og tækni. Keppt var í tækni á mótinu í Kolding og vann Ísland til verðlauna í fjórum flokkum.
Mæðgurnar María Guðrún Sveinbjörnsdóttir og Vigdís Helga Eyjólfsdóttir hlutu báðar gull í sínum aldursflokkum, Ástrós Brynjarsdóttir hlaut brons og Eyþór Atli Reynisson hlaut einnig bronsverðlaun. Aðrir keppendur voru Sveinborg Katla Daníelsdóttir og Aldís Richardsdóttir. Landsliðsþjálfarar tæknilandsliðsins eru systurnar Edina og Lisa Lents en þær eru báðar búsettar í Danmörku.
Stórir viðburðir eru framundan hjá tæknilandsliðinu en Ísland mun eiga fulltrúa bæði á Opna þýska mótinu sem haldið verður í Dresden í Þýskalandi nú í lok maí og á Evrópumótinu sem haldið verður í Serbíu í lok júní.