Ástrós með brons á Opna þýska

Íslenska tæknilandsliðið í taekwondo sem keppti í Dresden um helgina.
Íslenska tæknilandsliðið í taekwondo sem keppti í Dresden um helgina. Ljósmynd/Lisa Lents

Ástrós Brynjarsdóttir úr Keflavík vann til bronsverðlauna í flokki 15-17 ára á Opna þýska mótinu í taekwondo. Ísland átti sex fulltrúa á mótinu sem fram fór í Dresden um helgina.

Í taekwondo er annars vegar keppt í tækni og hins vegar í bardaga, og var keppt í tækni á mótinu í Þýskalandi um helgina. Um er að ræða sterkt A-mót þar sem aðeins þeir sem náð hafa svarta beltinu hafa keppnisrétt.  Í flokki Ástrósar voru 43 skráðir til keppni og alls tóku 344 einstaklingar frá 22 þjóðlöndum þátt.

Í einstaklingskeppni karla 12-14 ára kepptu þeir Hákon Jan Norðfjörð sem hafnaði í 7. sæti, Ágúst Kristinn Eðvarðsson sem hafnaði í 10. sæti, Eyþór Atli Reynisson sem hafnaði í 14. sæti og Halldór Freyr Grettisson sem hafnaði í 23. sæti. Eyþór Atli, Hákon Dan og Ágúst Kristinn kepptu auk þess í hópakeppni þar sem þeir voru eina liðið og unnu til gullverðlauna. Kolbrún Guðjónsdóttir keppti í einstaklingskeppni 41-50 ára og hafnaði í 14. sæti.

Þetta er í fyrsta skipti sem tæknilandsliðið keppir á German Open. Flestir keppendanna eru einnig á leið á Evrópumót á næstu vikum. Annars vegar er það Evrópumót í tækni sem haldið verður í Serbíu í lok júní en þangað fara þau Ástrós, Hákon Dan og Eyþór Atli, og hins vegar er um að ræða Evrópumót í bardaga sem haldið verður í Frakklandi í byrjun júlí þar sem Halldór Freyr og Ágúst Kristinn verða meðal keppenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert