Enska blaðið Sunday Times og þýska sjónvarpsstöðin ARD/WRD segja að þau hafi undir höndum gögn sem sýni fram á stórfellda lyfjamisnotkun margs af fremsta frjálsíþróttafólki heims, og íþróttaritstjóri BBC staðfestir að hann hafi séð gögnin.
Þar er um að ræða niðurstöður úr 12 þúsund lyfjaprófum sem tekin voru úr fimm þúsund íþróttamönnum á árunum 2001 til 2012.
Tveir af fremstu sérfræðingum heims í lyfjamálum íþróttafólks, Robin Parisotto og Michael Ashenden, voru fengnir til að endurskoða lyfjaprófin í sérstakri rannsókn á vegum IAAF, Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, en niðurstöðum þeirra var lekið til ofangreindra fjölmiðla.
Samkvæmt þeim hefur rannsóknin leitt eftirfarandi í ljós:
* Þriðjungur verðlaunahafa í þolgreinum frjálsíþrótta á Ólympíuleikum og heimsmeistaramótum á árunum 2001 til 2012 (alls 146 og þar af 55 gullverðlaunahafar) er með vafasamar niðurstöður úr lyfjaprófum. Sagt er að enginn þeirra hafi verið sviptur verðlaunum sínum.
* Meira en 800 af umræddum fimm þúsund íþróttamönnum hafa skilað af sér lyfjaprófum sem einn sérfræðinganna segir að sýni að öllum líkindum ólöglega lyfjaneyslu, eða séu í það minnsta afar óeðlileg.
* Tíu verðlaunahafar á Ólympíuleikunum í London 2012 eru með mjög vafasöm sýni úr lyfjaprófum.
* Í sumum greinum hafa allir verðlaunahafarnir greinst með óeðlileg sýni.
* Rússland komi fram í þessum rannsóknum sem „heimsmiðstöð lyfjamisferlis“, þar sem meira en 80 prósent verðlaunahafa frá landinu séu vafasöm. Þá hafi Keníamenn unnið 18 verðlaun á vafasaman hátt.
* Á meðal þeirra sem ekki hafa skilað af sér neinum vafasömum sýnum eru hlaupararnir Usain Bolt og Mo Farah.
Haft er eftir Robin Parisotto: „Ég hef aldrei séð annað eins samansafn af vafasömum lyfjasýnum. Geysilegur fjöldi íþróttafólks virðist hafa notað ólögleg lyf mjög kerfisbundið, og það er sláandi að IAAF virðist hafa setið hjá aðgerðalaust og leyft þessu að viðgangast."
Haft er eftir Michael Ashenden að skýrslurnar sýni að frjálsíþróttir séu nú komnar í jafn „djöfullega stöðu“ og hjólreiðar voru í þegar lyfjahneyksli Lance Armstrongs var upplýst. Hann sagði að IAAF hefði algjörlega brugðist þeirri frumskyldu sinni að stýra íþrótt sinni og vernda heiðarlegt íþróttafólk.
Dan Roan, íþróttastjóri BBC, skrifar að ekki sé um beinar sannanir um lyfjamisnotkun að ræða en skýrslan veki spurningar um hvort forystumenn íþróttarinnar hafi staðið í stykkinu, nú þegar heimsmeistaramótið í Beijing sé á næstu grösum.
IAAF kýs nýjan forseta eftir tvær vikur og þar er Sebastian Coe, fyrrverandi millivegalengdahlauari frá Bretlandi, talinn sigurstranglegur í baráttu við Sergei Bubka, fyrrverandi stangarstökkvara, frá Úkraínu. Eitt af baráttumálum Coes er að herða verulega tökin á lyfjaprófum frjálsíþróttafólks.