Viðhorf á laugardegi: Ekki sópa undir teppið

Justin Gatlin féll á lyfjaprófi og var dæmdur í fjögurra …
Justin Gatlin féll á lyfjaprófi og var dæmdur í fjögurra ára keppnisbann. Hann er mættur út á hlaupabrautina á nýjan leik. AFP

Í dag hófst heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum og hamingjan ein mun ríkja næstu daga, þar til allir verða flognir á brott úr Fuglshreiðrinu í Peking þann 30. ágúst. Ég bíð auðvitað spenntastur eftir því að sjá hvernig Ásdísi Hjálmsdóttur reiðir af í spjótkastinu og Anítu Hinriksdóttur í 800 metra hlaupinu. Aníta ríður á vaðið fyrir Íslands hönd aðfaranótt miðvikudags, um klukkan hálfþrjú, svo maður mætir væntanlega sprækur til vinnu á miðvikudagsmorgun!

Sólin mun eflaust láta sjá sig í Peking, en það verður skuggi yfir Fuglshreiðrinu. Skuggi lyfjahneykslis. Ásdís, Aníta, Usain Bolt og aðrir sem lagt hafa allt í sölurnar til að sýna sínar bestu hliðar á HM, án þess að hafa nokkru sinni reynst með óhreint mjöl í pokahorni, þurfa að gera það á meðan hver fréttin rekur aðra varðandi ólöglega lyfjanotkun meðal frjálsíþróttafólks. Svörtu sauðirnir skemma fyrir þeim, og okkur sem viljum bara geta horft á frjálsar án þess að velkjast í vafa um að fólkið sem skarar fram úr hafi farið rétta leið upp á verðlaunapallinn.

Alþjóða frjálsíþróttasambandið setti í þessum mánuði 28 íþróttamenn í bann eftir að sýni úr þeim voru rannsökuð að nýju og reyndust vafasöm. Þetta fólk er hins vegar nær allt hætt keppni, en verður ef að líkum lætur svipt þeim verðlaunum sem það fékk á HM 2005 og 2007, þegar sýnin voru tekin. Gott og vel. Dópliðið er því miður alltaf skrefi á undan eftirlitinu, en það er mjög jákvætt að nú megi skoða sýnin 10 árum síðar með betri aðferðum og refsa þeim sem brjóta af sér. Verst að það skuli ekki vera hægt að fara aftur í tímann og leyfa þeim sem raunverulega verðskulduðu verðlaunin að upplifa sigurstundina.

IAAF þarf hins vegar að gera betur. Frjálsíþróttafólk er reyndar gjarnt á að benda á að lyfjaeftirlit IAAF sé mun betra en í mörgum öðrum íþróttagreinum, en það bætir ekki böl að benda á annað. Og það bætir heldur ekki böl að stinga skýrslum undir teppi eða bregðast ókvæða við vel rökstuddum ásökunum.

Sjá allan viðhorfspistil Sindra í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert