Ynjur frá Akureyri eru í góðri stöðu á Íslandsmóti kvenna í íshokkí eftir öruggan sigur á Birninum, 8:2, í Egilshöllinni í gærkvöld.
Þær eru komnar með 11 stig eftir fjóra sigra í jafnmörgum leikjum en Ásynjur eru með 4 stig, Björninn 3 og SR ekkert stig.
Úrslitin voru ráðin eftir 15 mínútna leik þegar staðan var orðin 6:0. Ekkert var skorað eftir það í fyrsta leikhluta og annar leikhluti var tíðindalítill og markalaus. Í þeim síðasta skoruðu liðin svo tvö mörk hvort.
Silvía Björgvinsdóttir átti stórleik með Ynjum en hún skoraði 4 mörk og átti 3 stoðsendingar. Ragnhildur Kjartansdóttir skoraði tvö mörk og þær Bergþóra Bergþórsdóttir og Sandra Gunnarsdóttir gerðu sitt markið hvor.
Mörk Bjarnarins gerðu Sigríður Finnbogadóttir og Védís Valdemarsdóttir.