Andri Freyr Sverrisson var í stuði á sínum gamla heimavelli í kvöld þegar Esja vann SA 8:4 á Akureyri í kvöld. Andri er nýr leikmaður Esju og var að spila í fyrsta sinn á Akureyri eftir vistaskiptin. Hann gerði fyrrum félögum sínum grikk og skoraði þrennu. Kappinn var sóttur heim inn í búningsklega þar sem liðsmenn hámuðu í sig banana.
„Ég er búinn að vera í pásu frá markaskorum og aðrir hafa séð um þetta í síðustu leikjum. Það má segja að ég hafi skuldað mörk og í kvöld var komið að því að skora. Við erum á góðu flugi og mér líst vel á framhaldið hjá liðinu. Það kom reyndar hikst í síðasta leik en í kvöld náðum við að spila okkar leik og uppskárum verðskuldaðan sigur.
Áberandi var hve vakandi menn í liðinu voru við að róa liðsfélaga sína niður ef þeir urðu eitthað æstir. Það átti greinilega að einbeita sér að leiknum og öllu mótlæti var mætt með jákvæðni. „Þetta er bara eins og í mínu gamla liði. Það er alltaf eitthvað sem hægt er að æsa sig yfir og þeir reynslumeiri og skynsamari hafa það hlutverk að róa þá yngri og æstari niður."
Um framhaldið sagði Andri: „Ég er spenntur fyrir vetrinum og líst vel á mannskapinn. Persónulega er ég mjög sáttur með stöðu mála, er nýfluttur suður og er að komast inn í allt. Þrátt fyrir að félagið sé enn með vonda æfingatíma þá er hópurinn frábær og allir eru jákvæðir. Við vorum viku í Tékklandi fyrir mót og það gerði mikið fyrir liðið. Svo erum við bara að finna inn á hvern annan enda menn að koma úr ólíkum áttum. Ég tel að liðið eigi bara eftir að verða betra þegar líður á veturinn. Það eru fáir menn að starfa í kring um liðið en þeir eru að vinna frábært starf. Hópurinn er því samheldinn og liðsheildin sterk," sagði Andri Freyr að lokum.