Esja fór illa með SA

Leikmenn SA fagna marki á keppnistímabilinu.
Leikmenn SA fagna marki á keppnistímabilinu. Eggert Jóhannesson

Toppliðin tvö í karladeildinni í íshokkí spiluðu á Akureyri í kvöld. Fyrir leikinn var Esja með ellefu stig en SA með tíu. Björninn kom svo á hæla þeirra með átta stig.

Leikurinn var þrælskemmtilegur og spennandi en það var Esja sem var sterkari á lokakaflanum. Leiknum lauk með 4:8 sigri Esjunnar.

Heimamenn í SA voru í bölvuðu basli allan fyrsta leikhlutann en þó skoruðu þeir mark eftir 20 sekúndur. Esja réð síðan ferðinni en skaraði bara einu sinni í leikhlutanum.

Í öðrum leikhluta jafnaðist leikurinn og liðin sóttu á víxl. Esja komst í 1:2 og 2:3 en SA jafnaði í tvígang.

Staðan var 3:3 fyrir lokaleikhlutann og þá þegar var mönnum farið að hitna í hamsi. Refsingum var útdeilt og menn skiptust á fúkyrðum. Esja kom að krafti til leiks og skoraði tvisvar áður en SA minnkaði muninn í 4:5. Esja átti svo lokakaflann skuldlausan og bætti við þremur mörkum.

Nú er búið að spila fjórðung leikjanna í deildarkeppninni og liðin búin að slípa sig til. Esja lítur virkilega vel út og gæti hæglega haldið toppsætinu til loka. Liðið er skipað mörgum hæfileikamönnum sem geta farið illa með hvaða andstæðing sem er. Í SA er leikmannahópurinn fremur þunnskipaður og margir yngri spilarar eru að fá sína eldskírn.

Mörk(stoðsendingar:

SA: Jussi Sipponen 2/0, Hafþór Andri Sigrúnarson 1/0, Ivan Raimayer 1/0, Andri Mikaelsson 0/3, Ingvar Þór Jónsson 0/1.

Esja: Andri Freyr Sverrisson 3/0, Brynjar Bergmann 2/2, Róbert Freyr Pálsson 1/3, Ólafur Björnsson 1/0, Pétur Maack 1/0, Þórhallur Viðarsson 0/2, Björn Sigurðarson 0/1, Andri Þór Guðlaugsson 0/1, Egill Þormóðsson 0/1.

Refsingar:

SA: 20

Esja: 14

59. mín. MARK! 4:8 Esja er að rústa SA. Enn skorar Andri Freyr.

58. mín. MARK! 4:7 Andri Freyr Sverrisson stráir salti í sár SA-manna. Hann skorar eftir hraða sókn og klaufagang í vörn SA.

54. mín. MARK! 4:6 Nú ætti þetta að vera komið hjá Esjumönnum. Fyrirliðinn Ólafur Björnsson hendir í eina slummu og pökkurinn syngur í slánni á leið sinni í netið.

48. mín MARK! 4:5 Þetta var furðumark. Ivan Reimayer skorar með skoti þar sem Maximilian Mojzyszek sér aldrei pökkinn. Esja missir mann af velli skömmu síðar.

45. mín MARK! 3:5 Pétur Maack skorar með langskoti eftir snarpa sókn. Heimamenn virðast vera að missa hausinn.

42. mín MARK! 3:4 Enn kemst Esja yfir. Brynjar Bergmann skorar af stuttu færi eftir hamagang við mark SA.

40. mín. Öðrum leikhluta er lokið. Hann var mun jafnari en sá fyrsti. Aðeins er farið að hitna í kolunum og menn öskra hér á hvern annan. Liðið sem vinnur í kvöld mun fara í toppsætið.

35. mín. SA fær víti. Jón Benedikt Gíslason fer gegn Maximilian Mojzyszek. Maximilian ver með kylfuskaftinu. og staðan er því enn 3:3.

33. mín MARK! 3:3 Hafþór Andri Sigrúnarson fær skráð á sig mark. Hann átti fyrirgjöf sem einn Esjumanna var svo óheppinn að stýra í eigið mark.

28. mín. MARK! 2:3 Ótrúlegt mark. Róbert Freyr Pálsson var að koma úr refsiboxinu og fékk pökkinn á auðum sjó. Hann skautaði að marki og klobbaði markvörð SA. Skömmu áður hafði Andri Mikaelson verið í svipuðu færi en markvörður Esju varði skot hans.

25. mín MARK! 2:2 Jussi skorar aftur og það er Andri Mikaelsson sem á sendinguna. Esjumenn voru þrír gegn fjórum.

22. mín MARK! 1:2 Brynjar Bergmann kemst einn í gegnum vörn SA og þrátt fyrir klaufagang þá kemur hann pökknum í netið.

20. mín. Fyrsta leikhluta er lokið. Esja hefur verið mun meira með pökkinn og fengið fleiri færi. SA verst ágætlega en í þeirra lið vantar tvo algjöra lykilmenn í kvöld, þá Sigurð Reynisson og Sigurð Sigurðsson.

8. mín MARK1 1:1 Andri Freyr Sverrisson skorar gegn sínum gömlu félögum af stuttu færi. Esja hefur verið mun meira í sókn það sem af er.

1. mín MARK! 1:0 Jussi Sipponen skorar fyrir SA eftir 20 sekúndur. Hann fékk pökkinn frá Andra Mikaelssyni og fékk nægan tíma til að miða upp í skeytin á marki Esju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert