„Hentum þessu frá okkur“

Leikmenn SA höfðu ekki mikla ástæðu til að fagna í …
Leikmenn SA höfðu ekki mikla ástæðu til að fagna í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Ingvar Þór Jónsson var hálf súr eftir að Esja hafði unnið SA 8:4 Íslandsmótinu í íshokki á Akureyri í kvöld. Leikurinn var hnífjafn þar til í blálokin en þá skoruðu Esjumenn þrjú mörk. Ingvar var fenginn í stutt spjall.

„Við vorum inni í leiknum lengstum og mér leið vel, hafði góða tilfinningu fyrir þessu þótt við værum alltaf að elta. Svo bara hentum við þessu frá okkur í restina. Við fengum á okkur klaufaleg mörk og varnarleikurinn var alls ekki nógu góður. Við gerðum algjör byrjendamistök í a.m.k. tveimur mörkum sem þeir skoruðu. Svo vorum við að láta eitthvað fara í taugarnar á okkur og það er aldrei gott.“

Nú vantaði bæði Sigurð Reynisson og Sigurð Sigurðsson í liðið. Var það ekki of stórt skarð til að fylla? „Ekkert endilega. Við erum með flotta unga leikmenn sem eru alltaf að koma betur inn í liðið. Auðvitað munar um þá enda eru þeir lykilmenn. Þeir eru báðir inná í powerplay og penalty kill (þegar liðið er í yfir- eða undirtölu) og svo er erfiðara að spýta í þegar á þarf að halda þegar hópurinn er þunnur.“

Hvað með tímabilið framundan? „Við erum með ágætis hóp en megum ekki við neinum skakkaföllum. Vonandi verða menn bara heilir og þá verður þetta í lagi. Það eru margir ungir í hópnum sem vantar leikreynslu og svo eru nokkrir gamlir sem þurfa að passa skrokkinn og halda sér í formi, eins og t.d. Siggi Sig.“

Já, hvað er Sigurður eiginlega orðinn gamall? „Það veit enginn hvað hann er gamall. Ætli hann sé ekki jafn gamall og Innbærinn. Hann hefur verið hluti af honum svo lengi,“ sagði Ingvar, líklega að fíflast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert