Stangarstökksdrottningin Jelena Isinbajeva og Sergej Sjubenkov, heimsmeistari í 110 m grindahlaupi, hafa skrifað Alþjóða frjálsíþróttasambandinu opið bréf þar sem þau óska eftir því að vera undanþegin banninu sem allt rússneskt frjálsíþróttafólk hefur verið sett í.
Isinbajeva er 33 ára og Sjubenkov 25 ára. Fyrir Isinbajevu er því líklegast að Ólympíuleikarnir í Ríó á næsta ári yrðu hennar síðustu, en samkvæmt banninu sem IAAF úrskurðaði Rússa í á föstudaginn er draumurinn um að keppa þar úr sögunni. IAAF tók ákvörðun sína eftir útgáfu skýrslu Alþjóða lyfjaeftirlitsins, þar sem fjallað er um víðtæka og skipulagða lyfjamisnotkun rússnesks frjálsíþróttafólks. Isinbajeva og Sjubenkov segjast hins vegar engan þátt eiga í því, og benda á að þau hafi aldrei á sínum ferli fallið á lyfjaprófi. Þau vilji ekki þurfa að gjalda fyrir ólöglegt athæfi annarra:
„Við óskum þess að þið setjið ekki þá í bann sem eiga enga sök á því sem hefur gerst. Fólki sem er blásaklaust og hefur aldrei lent í vandræðum vegna lyfjamála,“ segir í bréfinu.
„Við getum ekki ímyndað okkur lífið án frjálsra íþrótta, þar sem við keppum við þau bestu í heimi. Þetta er tilgangur lífsins. Okkur dreymir um að keppa á ÓL í Ríó og við biðjum ykkur um að eyðileggja ekki þann draum,“ segir þar einnig.
„Markmiðið mitt er að ljúka ferlinum í Ríó. Það væri viðeigandi að ljúka mínum langa ferli á Ólympíuleikum,“ sagði Isinbajeva, sem er heimsmethafi í stangarstökki.
Sjubenkov leynir ekki vonbrigðum sínum, og bendir á að nú virðist sagan ætla að endurtaka sig hjá sinni fjölskyldu. Móðir hans, Natalja Sjubenkova, fékk ekki að taka þátt á ÓL í Los Angeles 1984 þar sem að Sovétríkin ákváðu að sniðganga leikana.
„IAAF hefur tekið snilldarákvörðun. Ef hún fær að standa þýðir það að ég verð settur í bann fyrir að hafa ekki gert nokkurn skapaðan hlut af mér. Þetta er algjörlega fáránlegt, en ég held í vonina um að þetta endi vel,“ sagði Sjubenkov.
„Staðan er núna þannig að það lítur út fyrir að sagan endurtaki sig hjá fjölskyldunni minni,“ bætti hann við.