Annie Mist með þrjú Íslandsmet á HM

Annie Mist Þórisdóttir lyftir 95 kg í jafnhendingu á RIG …
Annie Mist Þórisdóttir lyftir 95 kg í jafnhendingu á RIG í fyrra. Hún lyfti 108 kg í Houston. Ljósmynd/LSÍ

Annie Mist Þórisdóttir, Katrín Tanja Davíðsdóttir og Hjördís Ósk Óskarsdóttir luku allar keppni á heimsmeistaramótinu í ólympískum lyftingum í Houston í Bandaríkjunum í gærkvöldi og nótt.

Annie Mist gerði sér lítið fyrir og setti þrjú Íslandsmet í -69 kg flokki. Fyrst lyfti hún 88 kg í snörun, í lokatilraun sinni, og í jafnhendingunni lyfti hún 108 kg. Samtals lyfti hún því 196 kg. Hún bætti Íslandsmetið í snörun um 3 kg, metið í jafnhendingu um 3 kg, og metið í samanlögðu um 6 kg.

Katrín Tanja, sem varð Íslandsmeistari í crossfit fyrir aðeins rúmri viku síðan, keppti í sama þyngdarflokki og Annie og stóð sig einnig afar vel. Katrín lyfti 84 kg í snörun og var nálægt því að lyfta 87 kg, hefði þá bætt sig um 2 kg, en lyftan var dæmd ógild þar sem vinstri olnbogi fór aðeins úr lás í botnstöðu. Katrín lyfti svo 94 kg í jafnhendingu, og því samtals 178 kg.

Annie endaði í 5. sæti af 11 keppendum í sínum riðli, en Katrín í 9. sæti.

Hjördís Ósk keppti í -63 kg flokki og jafnaði sinn besta árangur í snörun þegar hún lyfti 75 kg. Hún lyfti 100 kg í jafnhendingu en reyndi svo við 105 kg og næst 106 kg, sem hefði verið nýtt Íslandsmet, en þær lyftur tókust ekki. Hjördís hafnaði í 7. sæti af 10 keppendum í sínum riðli.

Áður hafði Þuríður Erla Helgadóttir sett Íslandsmet í -58 kg flokki á mótinu. Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir er svo síðust íslensku keppendanna en hún keppir á föstudag í -75 kg flokki.

Eins og Morgunblaðið fjallaði ítarlega um fyrir skömmu eru íslensku keppendurnir á HM með það markmið í huga að koma íslenskri lyftingakonu í fyrsta sinn á Ólympíuleika. Til þess þurfa þeir að taka þátt á HM og ná svo góðum árangri á Evrópumeistaramótinu á næsta ári.

Sjá einnig: Crossfit-stjörnur horfa til Ríó

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert