Lést við að reyna að ná vigt

Yang lést á föstudag.
Yang lést á föstudag. Ljósmynd/Skjáskot

MMA-bardagaíþróttamaðurinn Yang Jian Bing lést eftir að hafa misst meðvitund vegna ofþornunar þegar hann reyndi að ná vigt fyrir bardaga sem átti að fara fram í Filippseyjum. 

Skipuleggjendur bardagans segja að Yang, 21 árs Kínverji, hafi verið úrskurðaður látinn á spítala í Manila í Filippseyjum á föstudag, einungis nokkrum klukkustundum áður en fyrirhugaður bardagi átti að fara fram.

„Yang var sendur á spítala eftir að hafa skyndilega misst meðvitund að morgni 10. desember 2015,“ sagði í tilkynningu frá skipuleggjendum bardagans. Ekki kom fram í tilkynningunni hvers vegna Yang missti meðvitund.

Á föstudaginn sögðu skipuleggjendur að bardaga Yang hefði verið aflýst vegna „mikillar ofþornunar Yang við tilraunir til að ná vigt.“ Þar sagði ennfremur að Yang hefði verið sendur á spítala til að fá aftur vökva í líkamann.

Forstjóri One Championship, Victor Cui, var hryggur vegna málsins. „Það er ekkert sorglegra en þegar meðlimur One Championship fellur frá. Bænir okkar eru hjá fjölskyldu Yang og við munum bjóða þeim allan stuðning sem þau þurfa á þessum erfiðu tímum.“

Yang hafði verið spenntur fyrir bardaganum. „Ég hlakka mikið til. Ég hef verið í harki lengi og fæ loksins tækifæri til að keppa í One Championship, stærstu keppninni í Asíu,“ skrifaði Yang á aðdáendasíðuna sína á samfélagsmiðlinum Webo.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert