Fékk 150 milljónir króna á sekúndu

Conor McGregor svitnaði ekki einu sinni við það að tryggja …
Conor McGregor svitnaði ekki einu sinni við það að tryggja sér heimsmeistaratitilinn um helgina. AFP

Írski bardagakappinn Conor McGregor fékk ágætis tímakaup fyrir það að vinna Jose Aldo og verða þar með heimsmeistari í fjaðurvigt, á UFC-kvöldinu í Las Vegas um helgina.

McGregor var aðeins 13 sekúndur að vinna Aldo en samkvæmt The Sydney Morning Herold má ætla að hann fái í kringum 16 milljónir Bandaríkjadala fyrir sigurinn, eða rúmlega 2 milljarða íslenskra króna. Það jafngildir rúmlega 150 milljónum króna fyrir hverja sekúndu af bardaganum.

McGregor ætlar að taka því rólega núna eftir sigurinn, og njóta jólanna með kærustu sinni, Dee Devlin, heima á Írlandi.

„Í þessum bardagaheimi er maður alltaf á ferðinni, og þess vegna missir maður oft af jólahaldinu, en í þetta sinn verður það ekki raunin og ég fæ að fara heim,“ sagði McGregor við Irish Mirror.

„Ég er búinn að leggja gríðarlega mikið á mig á þessu ári. Þetta er búið að vera algjört brjálæði og þess vegna hlakka ég mikið til þess að fara heim, skreyta jólatréð með kærustunni minni, verja tíma með fjölskyldunni og borða góðan mat,“ sagði McGregor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert