„Þetta tap þýðir það að Gunnar tekur tvö skref til baka á leið sinni á toppinn. Þessu má líkja við slönguspil og Gunni lenti á slöngureit og þarf fyrir vikið að fara nokkur skref til baka. Næst mun hann fá einhvern andstæðing sem er á bilinu 10-20 í röðinni yfir þá bestu í flokknum,“ segir Pétur Marinó Jónsson, eigandi og ritstjóri MMA-frétta.
Við tapið féll Gunnar úr 12. sæti á listanum yfir þá bestu í hans þyngdarflokki niður í 14. sæti. Fyrir þátttöku sína í bardaganum fékk Gunnar tæpar tíu milljónir króna. Til samanburðar fékk sigurvegarinn Demian Maia um 20 milljónir króna.
Sigurvegari aðalbardaga kvöldsins síðastliðinn laugardag í Las Vegas, Conor McGregor, fékk í sinn hlut 64 milljónir króna.
„Gunnar verður sennilega að vinna a.m.k. fjóra bardaga í röð til þess að eiga möguleika á titilbardaga,“ segir Pétur Marinó. Hann segir að það geti tekið Gunnar nokkuð langan tíma að jafna sig eftir þær barsmíðar sem hann hlaut í hringnum á laugardag. „Hann er náttúrlega aðeins marinn í andlitinu en hann verður orðinn heill eftir nokkra daga. Það eru reglur sem segja að þú megir ekki æfa í einhvern tíma eftir svona bardaga. Ef þú ert rotaður, þá máttu t.a.m. ekki æfa í þrjá mánuði þar sem hætta er á því að þú fáir högg í þig. Ég geri ráð fyrir því að hann taki það rólega í smá tíma eftir þetta,“ segir Pétur.
Hann telur vel mögulegt að Gunnar vilji komast sem fyrst aftur í hringinn. Pétur segir minnst tvo mánuði líða á milli þess sem menn fara í hringinn, en að jafnaði berjist menn tvisvar til þrisvar á ári.
Fyrirsjáanlega skapaðist umræða í samfélaginu um skaðann af höfuðhöggum í blönduðum bardagaíþróttum. Spurður segir Pétur Marinó, að atvinnumenn geri sér fulla grein fyrir þeirri hættu sem fylgi þátttöku í íþróttinni. „Íþróttin er ekkert fyrir alla en þess má geta að menn fara í ítarlega læknisskoðun eftir svona bardaga. Það er mjög vel fylgst með mönnum,“ segir Pétur Marinó.